Rússnesk menning er dauð, lengi lifi rússnesk menning

Mynd: randreu / randreu

Rússnesk menning er dauð, lengi lifi rússnesk menning

22.06.2022 - 09:19

Höfundar

Í öðrum pistli sínum um Rússland eftir fall Sovétríkjanna fyrir Víðsjá Rásar 1, fjallar Victoria Bakshina um menningu og listir. Getur mögnuð menningararfleið rússnesku þjóðarinnar þvegið hendur hennar af ofstæki valdhafa hennar undanfarið, eða verður að endurreisa menningarhefðina og byggja hana frá grunni með hliðsjón af myrkri fortíð?

Victoria Bakshina skrifar:

Jafnvel áður en Sovétríkin hrundu lá vonin um breytingar á rússneskri menningu í loftinu: Gorbatsjev og Glasnost-tímabilið seint á níunda áratugnum var hvetjandi, járnhnefi ritskoðunarinnar hélt fólki ekki lengur hálstaki, svo það kafaði í hinu óþekkta. Hrunið var harmleikur þar sem það táknaði tap á þessari sovésku algildu sjálfsvitund tovarischs (félaga), og tap á menningartengslum og skiptum á milli sovétlýðveldanna, en einnig var litið á það sem nýtt upphaf - járntjaldinu var lyft og Rússar biðu óþolinmóðir eftir að hafa almennilega sýn á vestræna menningu, ekki undir ströngu eftirliti og í takmörkuðu opinberu umhverfi, eða smygluðu eins og Bítlakasettunni sem pabbi minn hlustaði á í heyrnartólunum sínum undir teppi í lokuðu herbergi í æsku. Spurningin lá í loftinu: Eru Vesturlönd í raun eins og þeim var lýst af sovéskum ríkisfjölmiðlum – sérvitrir einstaklingshyggjumenn, gildislausir og siðlausir? Eða erum við kannski nær þeim en við höldum? Getum við lifað saman eða eiga Rússar að fara sína eigin leið?

Árin rétt eftir hrun voru ekki góð fyrir rússneska listamenn og menninguna almennt: Rússneskir innviðir stóðu sig ekki vel, hagkerfið var í molum þar sem mikið af auðlindum sem dreift var í áætlunarbúskapnum tapaðist. Kreppan skall á mjög hratt, síðan komu tvö stríð í Téténíu og fólk neyddist til að vinna fyrir sínu daglega brauði við allar mögulegar aðstæður. Listamennirnir urðu leigubílstjórar, hámenntað fólk seldi grænmeti á markaðnum, verksmiðjustarfsmenn fengu greitt með vörum sem þeir framleiddu, kennarar sultu og fengu ekki borgað í marga mánuði – en allir lifðu af eftir bestu getu.

En þrátt fyrir það náðust ákveðnir áfangar.

Samhliða kreppu stjórnmálakerfisins hefur ríkjandi heimsmynd íbúanna einnig verið dregin í efa. Kommúnistahugmyndafræði missti merkingu sína vegna hruns sósíalíska heimskerfisins almennt og Sovétríkjanna sérstaklega. Meðvitund fólks um stað þeirra í heiminum leiddi ekki aðeins til höfnunar á kommúnískum hugmyndum, heldur einnig til höfnunar á mörgum gildum og siðum.

Hvað varðar væntingar almennings þá breyttist stemningin líka mjög hratt. Meirihluti þjóðarinnar trúði í upphafi á opinberan áróður en þegar vandamál í efnahagslífinu, innanríkis- og utanríkisstefnu jukust, fór almenn stemning smám saman að hallast að einstaklingshyggju. Hugmyndir um þjóðernishyggju urðu líka útbreiddar.

Í gegnum árin minnti kreppa hugmyndafræðinnar fólk á trú. Trúarleg viðhorf í samfélaginu þróuðust af endurnýjuðum krafti seint á níunda áratugnum. Endurreisn kirkna, klaustra, moskna og samkunduhúsa hófst um allt Rússland.

Hins vegar var ekki allt svo bjart í kirkjuumhverfinu, því hrun Sovétríkjanna hafði líka áhrif á það: í Úkraínu lýsti hluti kirkjuforystunnar yfir sjálfstæði rétttrúnaðarkirkju sinnar, sem leiddi til klofnings í rétttrúnaðinum. Innleiðing lýðræðislegrar meginreglu í trúarlífinu leiddi til tilkomu og útbreiðslu ýmissa sértrúarhópa og gúrúa í Rússlandi, og sumir þeirra voru nokkuð róttækir. Hefðbundin trúfélög stóðu frammi fyrir nauðsyn þess að halda stöðu sinni í baráttunni fyrir trúað fólk.

Helstu þættirnir í þróun rússneskrar menningar á síðustu 10 árum 20. aldar voru:

  •  afnám takmarkana á frelsi til sköpunar;
  •  mikill samdráttur í ríkisframlögum til menningarstofnana;
  •  alvarleg lækkun á almennu menningarstigi íbúa.

Margar menningarpersónur byrjuðu að starfa á sviðum póstmódernisma, nýframúrstefnu og konseptúalisma. Hins vegar var þetta ferli ekki gallalaust – slík list var aðeins viðurkennd af þröngum hring aðdáenda.

Þvert á móti hafa verk tíunda áratugarins í hefðbundnum stíl hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Meðal þeirra er rétt að draga fram kvikmynd eftir Nikita Mikhalkov „Utomlennye solnsem“ (Brenndir af sólinni), sem hlaut Óskarinn; kvikmynd eftir Sergei Bodrov „Kavkazkiy plennik“ (Kákásusfangi) hlaut sérstök verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes; myndir eftir Alexei Balabanov „Brat“ og „Brat-2“ (Bróðir 1 og 2) nutu einnig mikilla vinsælda erlendis.

Með tilkomu VHS jókst innflutningur erlendra kvikmynda. Í æsku horfðum við stanslaust á hasarmyndir með Schwarzenegger, Lungren, Stallone og Jackie Chan í aðalhlutverkum. Tiltækum erlendum kvikmyndum, indverskum og suðuramerískum hafði verið skipt út fyrir klassískar bandarískar og evrópskar myndir. Við horfðum á þær með ánægju og áttuðum okkur á að fólkið í þessum myndum var mjög líkt okkur, stóð fyrir sömu gildi. Á sama tíma var alþjóðlega kvikmyndahátíðin haldin í Moskvu og hin árlega rússneska kvikmyndahátíð „Kinotavr“ í Sochi.

Rússnesk bókmenntasköpun breyttist talsvert. Kreppa virðulegra rithöfunda undanfarinna ára varð áberandi, þar sem þeir upplifðu sjálfsmyndarkreppu í kjölfarið hruns ríkisins. Fyrir flesta rithöfunda Sovéttímans varð það einkennandi að búa til verk, sem flest gagnrýndu félagslegar umbreytingar tíunda áratugarins. Bókmenntalíf þess tíma uppgötvaði líka mörg ný nöfn og sum þeirra urðu tákn kynslóðarinnar.

Ungi rithöfundurinn Viktor Pelevin náði miklum vinsældum, en frægustu skáldsögur hans voru „Chapaev i pustota“ (Chapaev og tómið) og „Generation Pi“ (Pí-kynslóðin). Verk hans einkenndust bæði af frábærum söguþræði og ýktri heimspekilegri og frumspekilegri afstöðu til alls sovésks. Meðal einkenna hinna nýju bókmennta var kaldhæðni gagnvart sovéskri arfleifð og gildum, sem og stöðug leit að óvenjulegum tjáningarformum höfunda.

Þróun rússneskrar menningar og vísinda á tíunda áratugnum var engu að síður misvísandi, sem og ástandið í landinu í heild. Annars vegar kom algjört sköpunarfrelsi til Rússlands, sem ekki var lengur stjórnað af ríkinu. Fjölmiðlum var loksins ekki stjórnað af neinum, gífurlegur fjöldi rása, prentuð rit birtust, gonzo- og rannsóknarblaðamennsku var hleypt af stokkunum. Á hinn bóginn leiddi skortur á fjárhagsaðstoð ríkisins í markaðshagkerfi og minnkandi áhugi borgaranna á neyslu menningarverðmæta til þess að ómögulegt var að átta sig á hinni nýju rússnesku menningu að fullu.

Með þessum farangri stigu Rússar inn í Pútíntímann. Fyrstu 8 árunum í forsetatíð hans mætti lýsa sem stöðugleika og sókn í átt að Vesturlöndum og samvinnu. Með sterkara hagkerfi fékk fólkið tækifæri til að ferðast til útlanda og það hafði ótrúlegustu áhrif á menninguna; allar mögulegar menningarnýjungar streymdu inn í landið og settust hér að, menningarstofnanir fengu almennilegt fjármagn, dægurmenning blómstraði samkvæmt nýjustu trendum. Fjöldi ólíkra hópa var stærri en nokkru sinni fyrr. Meira að segja hinsegin fólk var með, þökk sé Tatú-hljómsveitinni. Við gerum okkur grein fyrir því núna að þetta var auglýsingabrella, en það skipti máli fyrir allar kynslóðir. Frumbyggjamenning Rússlands fékk tækifæri til að taka þátt í málþingum annarra frumbyggja og fékk umtalsverða styrki til þróunar og tungumálaeflingar.

Svo virtist sem rússnesk menning hefði fundið sinn sess meðal alþjóðlegrar menningar. En höfnun á umsókn Rússlands um aðild að NATO árið 2007 og Münchenræða sem Pútín flutti í kjölfarið gerði það ljóst: Þau, Vesturlönd, vilja ekki að við séum með. Þess vegna förum við okkar eigin leið. Svo var byrjað að herða reglurnar. Eftir Pussy Riot pönkbænina árið 2012 tók nýr menningarmálaráðherra, Vladimir Medinsky, við embætti. Sem þjóðernissinni hrifinn af klassík og hefðbundnum gildum taldi Medinsky í fullri alvöru að Rússar ættu að fylgja sínum eigin andvestrænu leiðum. Medinsky taldi að reisa ætti styttur af Jósef Stalín á stöðum þar sem meirihluti heimamanna er hlynntur honum. Athyglisvert er að Medinsky er ekki andsnúinn kirkjunni og þökk sé vernd hans styrkti hún stöðu sína, næstum sameinaðist ríkinu og fékk umtalsverða styrki. Nú á dögum eru fleiri kirkjur byggðar en skólar eða sjúkrahús.

Árið 2013 lagði menningarmálaráðuneyti Medinsky til uppfærða yfirlýsingu um menningarstefnu þar sem kallað var eftir „höfnun á meginreglum umburðarlyndis og fjölmenningar“. Í stefnunni er lögð áhersla á rússnesk „hefðbundin gildi“ og varað við „gervilist“ sem gæti verið andsnúin þessum gildum. Árið 2015 kallaði Medinsky eftir því að stofnað yrði rússneskt „þjóðrækið internet“ til að berjast gegn vestrænum hugmyndum og bætti við að þeir sem væru á móti Rússlandi væru á móti sannleikanum. Með öðrum orðum, ritskoðunin var komin aftur, hún sló í gegn í kvikmyndahúsum, bókmenntum, fjölmiðlum, kvikmyndum og hjá bloggurum. Tjáningar- og fundafrelsi varð takmarkað. Þeir sem voru á móti straumnum eða þorðu að mótmæla opinskátt voru þaggaðir niður með öllum mögulegum ráðum, voru kallaðir erlendir umboðsaðilar sem stæðu gegn hefðbundnum gildum. Rússland var aftur orðið lögregluríki.

Með innlimun Krímskaga var ríkið farið að stjórna flæði fjölmiðla og menningarviðburða enn frekar. Umboð og sjóðir til mats á menningu jukust gríðarlega og álit áhorfenda skipti ekki máli lengur. Dregið var úr innflutningi á vestrænum kvikmyndum og menningarframleiðslu. Rússar voru að gera sína eigin hluti án aðkomu Vesturlanda eins og Medinsky og Pútín dreymdi um. En almenningur var ósammála, þótt hann væri hræddur við að tjá sig – þar sem farið var að fylgjast með athugasemdum, jafnvel á netinu.

Þegar rússneska innrásin í Úkraínu hófst var því engin furða að listamennirnir sem lýstu opinberlega yfir að þeir væru á móti stríðinu flýðu land af ótta við ofsóknirnar, þar sem nýju lögin sem sett voru í mars 2022 sögðu skýrt: Allt að fimmtán ára fangelsi fyrir vanvirðingu gagnvart rússneska hernum og sérstökum hernaðaraðgerðum – svo listamennirnir, heimspekingarnir, kennararnir, crème de la crème rússnesks menningarlífs pökkuðu dótinu sínu saman og flúðu. Alveg eins og farþegar Heimspekingaskipsins árið 1922 sem fluttu til útlanda rússneska mennta-og listamenn, sem þoldu ekki grimmd októberbyltingarinnar og borgarastyrjöldina sem fylgdi í kjölfarið. Rússneska menningarelítan í útlöndum skipuleggur nú tónleika, stofnar góðgerðarsamtök og hernaðarandstæðinganefndir til að styðja Úkraínumenn og leggja sitt af mörkum til að enda stríðið. Á sama tíma gráta mennirnir í Kreml yfir rússneskum tónskáldum, höfundum og kvikmyndagerðarmönnum sem hefur verið slaufað, og telja Vesturlönd geðveik en ítreka að rússnesk menning muni njóta góðs af þessu og verða enn sterkari og ríkari. Ef einhver styrkur gæti þróast í tómarúmi þjóðrembings Zetu-áhafna og ritskoðunar, náttúrulega. Svo virðist sem rússnesk menning sé komin í hnút.

Stríðið við Úkraínu bitnaði á rússneskri menningu. Mörg samtök, sýningar og félög hafa hætt samstarfi við Rússland - allt frá UNESCO til kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Hernaðarárásir Rússa drógu alla rússneska klassíska menningu í efa; kvikmyndir og málverk, leikhús og bókmenntir. Fólk sem las Pushkin og Gogol í skólanum og horfði á góðar sovéskar teiknimyndir fremur nú þjóðarmorð í Úkraínu, nauðgar konum og stundar rán. Hinir svokölluðu „verjendur rússneska heimsins“ eyðilögðu leikhúsið í Mariupol, þrátt fyrir risastóra áletrunina „Börn“ við hliðina á byggingunni. Flestar uppfærslur í þessu leikhúsi byggðust á sígildum rússneskum bókmenntum.

Sumir telja að ómögulegt sé að hætta við og gengisfella afrek rússneskrar menningar, aðrir að hún hafi endað í alnúlli og engin rússnesk menning sé til: hún geti ekki bjargað Rússum frá villimennsku, þannig að nokkurra áratuga endurreisn og iðrun bíði.

Og nú er hlutverk menningarpersóna bæði í Rússlandi og erlendis að hugsa vel um hvað eigi að endurskoða úr fortíðinni, hvað og hvernig eigi að skapa nútíð og framtíð.

Rússneskri menningu hefur verið slaufað, og auðvitað ekki af þeim sem nú ræða á ríkisrásum að rússneskum tónleikum og gjörningum hafi verið aflýst. Nei, rússneskri menningu er slaufað með rússneskum sprengjum sem féllu á leikhúsið í Mariupol, þar sem 300 manns fórust, þar á meðal tugir barna. Þetta er raunverulegt afnám menningar. Við þurfum núna að byggja allt upp frá grunni – rússnesku þjóðina, rússneska ríkið og rússneska menningu.

Hvernig? Það er óljóst. Kannski þurfum við einhvern eins og Eminem sem tókst að dissa Machine Gun Kelly út úr rappgeiranum, sem betur fer fyrir poppkúltúr í Bandaríkjunum. En enginn veit hvort það sé einhver Eminem meðal okkar sem getur staðið fyrir rússneska menningu

Tengdar fréttir

Pistlar

Rússland í þrjátíu ár tálsýn lýðræðisins og sýndarríki