Óttast útbreiðslu lúpínu á friðlýstu svæði

22.06.2022 - 17:43
Mynd: RÚV / Sölvi Andrason
Lúpína er gjarnan óvelkominn gestur, sérstaklega á svæðum þar sem plöntu- og fuglalíf er ríkt. Dæmi um slíkt er útbreiðsla lúpínunnar í nágrenni friðlandsins í Krossanesborgum við Akureyri.

Óttast að fugla- og plöntulíf verði fyrir áhrifum

Lúpína er farin að skjóta rótum í Krossanesborgum og Jón Ingi Cæsarsson, fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrar, óttast áhrifin sem það getur haft á fugla- og plöntulíf. Hann segir að ef lúpínan næði framrás á svæðinu og kerfillinn á eftir, yrði það að hvítri og einsleitri blómabreiðu.

„Við viljum halda í okkar íslenska gróður“

Krossanesborgir voru friðlýstar árið 2004 til að vernda fjölbreytt plöntu- og fuglalíf á svæðinu sem Jón Ingi telur nú í hættu. „Allur undirgróður og móagróður mun hverfa og í staðinn fáum við þessar hávöxnu, fallegu plöntur en það er eitthvað sem við viljum ekki, við viljum halda í okkar íslenska gróður, allavega á þessum friðlöndum,“ segir Jón.

Eru meðvituð um stöðuna og slá með reglubundnum hætti

Rut Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Akureyrarbæ, segist meðvituð um stöðuna. Lúpína og kerfill séu slegin með reglubundnum hætti og þar séu Krossanesborgir engin undantekning. „Við erum venjulega að byrja svona í kring um 15. til 20. júní,“ segir hún. Hún bætir við að tímasetning sláttar geti verið vandasöm. Ekki sé hægt að ráðast í verkið of snemma vegna unga í hreiðrum en ekki má heldur fara of seint af stað því þá er hætta á að lúpínan verði farin að blómstra.

Þrjátíu tegundir fugla verpa á svæðinu

Jón segir svæðið einstakt fuglaland á Íslandi þar sem um þrjátíu tegundir fugla verpa og því séu mikil verðmæti fólgin í því að vernda svæðið. Hann segir lúpínu sem betur fer ekki komna alvarlega inn í Krossanesborgir en hætta sé á því. „Lúpínan er hér og bíður átekta og fer af stað ef henni verður ekki haldið í skefjum, við sjáum það sem gerðist í Hrísey. Varpfuglum mun örugglega fækka eins og gerðist þar. Þegar kerfillinn kemur síðan eftir, sem vonandi verður ekki, þá hverfur varp mófugla að mestu leyti og eftir sitja fáar tegundir sem láta sér líka að verpa í svona landi,“ segir Jón.