Óperusöngvarar vilja vita hvert peningar Óperunnar fara

22.06.2022 - 08:05
Mynd með færslu
 Mynd: -
Íslenska óperan er eiginlega eini starfsvettvangurinn fyrir klassískt menntaða söngvara þessa lands. En óánægjan með stofnunina og hvernig henni hefur verið stjórnað er svo mikil að söngvararnir krefjast þess að stjórnendur víki, almennilegri þjóðaróperu verði komið á laggirnar og að fólk taki þar við taumunum sem hefur menntun og skilning á faginu. Söngvarar setja stórt spurningarmerki við það hvernig hátt í milljarði króna af ríkisfé hefur verið varið undanfarin þrjú ár.

Það varð eiginlega allt vitlaust innan óperuheimsins á Íslandi eftir viðtalið við stjórnarformann óperunnar í Þetta helst. Þátturinn fjallaði um málaferli Þóru Einarsdóttur söngkonu gegn Íslensku óperunni, þar sem hún stefndi stofnuninni fyrir vangoldin laun og greiðslur eftir túlkun sína á Súsönnu í óperunni Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart. Þóra tapaði málinu fyrir héraði, en áfrýjaði til Landsréttar og vann. Óperunni var gert að greiða Þóru rúmar 600 þúsund krónur og allan málskostnað, tæpar þrjár milljónir. Pétur J. Eiríksson, stjórnaformaður Íslensku óperunnar, sagði meðal annars að hann kannaðist ekki við óánægju söngvara innan stofnunarinnar, það væri miður að Óperan hefði að litlu eða engu leiti komið að vinnu að stofnun nýrrar þjóðaróperu og að hann væri ósammála niðurstöðu Landsréttar í máli Þóru. 

Klassís, fagfélag klassískt menntaðra söngvara á Íslandi, hefur verið harðort í garð Óperunnar. Eftir að sýknudómurinn féll í héraði í janúar í fyrra lýsti félagið yfir vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar, vegna ófagmannlegra stjórnunarhátta á undanförnum árum, eins og það var orðað. Vorið 2021 kom fram að ríkisstjórnin hefði veitt Ís­lensku óperunni fjögurra milljóna króna styrk um­fram fjár­lög þremur vikum eftir að sjö stéttar- og fag­fé­lög leituðu til ráð­herra vegna fjölda um­kvartana um ein­elti, at­vinnu­róg og samnings­brot af hálfu óperunnar. Klassís fór líka fram á að stjórn Óperunnar og óperustjórinn víki frá störfum og að menntamálaráðherra skrúfi fyrir fjárveitingar til stofnunarinnar nái það ekki fram að ganga. Klassísku söngvarar landsins hafa einfaldlega verið mjög ósáttir við óperuna.

„Það þarf líklegast ekki vitnanna við að krafa KlassÍs um að fólk sem ekki þekkir betur til, og getur ekki dæmt betur til um störf óperustjóra, eigi e.t.v. að víkja sem fyrst, sé með öllu réttlætanleg. Og gott væri ef fréttafólk kynnti sér aðeins betur málin áður en svona þvælu er útvarpað án leiðréttinga.“
- Gunnar Guðbjörnsson söngvari

Heldur er þetta nú dapurt svo ekki sé meira sagt. Við vorum bjartsýnn og öflugur hópur, sem lagði af stað í þetta stóra ferðalag 1980 með Garðar Cortes í broddi fylkingar. Hefði ekki ímyndað mér nokkurn tímann að svona yrði komið fyrir þessu óskabarni okkar söngvara í dag. Þetta ástand þarf að breytast og það strax! Burt með núverandi framkvæmdastjóra og stjórn!
- Elísabet Waage söngkona

„Það er algjörlega ólíðandi hvernig talað er niður á söngvara sem brotið var á hjá ÍÓ. Stjórnarformaður átti að sjá sóma sinn í að biðja söngvara afsökunar á þessum kjarasamningsbrotum sem eru því miður ekki einsdæmi. Kannski mun stofnunin reyna að vanda sig framvegis og kynna sèr lágmarkstaxta. Skelfilegt klúður hjá stjórnanda.“ 
- Sigríður Aðalsteinsdóttir söngkona

„Það myndi taka nokkrar blaðsíður að rekja allar rangfærslurnar sem koma fram í þessu viðtali svo ég læt það eiga sig núna en þessi fyrirsöng stingur mig sárt.“ 
- Eyrún Unnarsdóttir söngkona

Ummæli Péturs sár og erfið

Gissur Páll Gissurarson tenor var í París þegar við náðum tali af honum. Hann segir íslenska óperusöngvarar ekki eiga í önnur hús að venda en Íslensku óperuna. 

„Það er afskaplega sárt og erfitt að heyra til dæmis þegar stjórnarformaðurinn segir að það séu allir mjög ánægðir sem eru starfandi við óperuna. Þá rýkur upp blóðþrýstingurinn því ef þú spyrð einhvern sem er stillt upp við vegg, ertu ánægður eða ánægð, þá auðvitað segir maður jájá, ég er það. Til að halda áfram. Þá hefur viðkomandi nákvæmlega ekkert val,“ segir hann. 

Söngvarar eiga ekki í nein önnur hús að venda

En hvað er það helst sem söngvararnir eru svona ósáttir með þegar kemur að stjórnunarháttum Steinunnar Birnu óperustjóra eða stjórnarinnar í heild? Fagmenntaðir óperusöngvarar vilja margir vinna hérna heima, en það er bara hægara sagt en gert. Bæði er búið að klippa á samskipti við vinafélag sem var stofnað sem aðhald við Óperunna og svo er listrænni stjórnun verulega ábótavant, segir Gissur. 

„Við eigum ekki í nein önnur hús að venda. Og við erum ekki sjálfráð á faglegum nótum um okkar eigið fag,“ segir hann. 

Ása Fanney Gestsdóttir óperusöngkona var formaður formaður Klassís, fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, þegar félagið lýsti yfir vantrausti á stjórn óperunnar og óperustjóra. Hún er ein af þeim sem brá í brún við að heyra viðtalið við Pétur í Þetta helst í síðustu viku. Hún tekur undir hvert orð hjá félaga sínum Gissuri. Hún segir vantraustið byggja á mun fleiru en kjaramálum söngvara, það nái meira að segja yfir önnur fagfélög. Samningur ríksins við Óperuna er runninn út, en fjárveitingar halda samt áfram.  

„Þetta er sjálfseignastofnun sem situr ein að öllu fé sem veitt er til óperustarfsemi á Íslandi. Þessara hefðbundnu stóru óperusýninga. Það er okkar spurning í hvað þessir peningar eru að fara. Núna hafa ekki verið neinar nýjar óperusýningar síðustu 3 ár. Það er enginn söngvari eða tónlistarmaður á föstum launum,“ segir Ása.  

„Stórkostleg“ og líklega frekar dýr skrifstofa

Gissur tekur yfirbyggingu Íslensku óperunnar sem dæmi og bendir á að stofnunin sé með á leigu skrifstofurými, eina hæð í Hörpu, með útsýni yfir Esjuna.  

„Þetta er stórkostleg skrifstofa. En það er ekki gert ráð fyrir í rekstri óperunnar, einu einasta rými fyrir það sem óperan á að standa fyrir. Sem er þá æfingaaðstaða eða leikmunagerð. Það er enginn staður fyrir óperuna í Íslensku óperunni.“

„Máli mínu til stuðnings þá get ég bent á það að frá 2019, þegar Brúðkaup Fígarós fór á fjalirnar í Borgarleikhúsinu, og þangað til í dag, hefur ekki verið framleidd ein einasta nýja sýning. Á sama tíma hafa runnið 643 milljónir til stofnunarinnar. Og vegna skorts á fagmennsku hjá stjórn og óperustjóra þá hefur ekkert gerst,“ segir Gissur. „Ég dreg þá ályktun að peningarnir sem fara til Óperunnar, þessar 634 milljónir síðustu þrjú árin, fari frekar í yfirbyggingu og einhver málaferli og alls konar hluti. En ekki í fagið.“

Óforsvaranleg nýting á skattfé

Ása tekur undir þetta. „Félaginu finnst óforsvaranlegt að þessari stjórn finnist það góð nýting á skattfé borgaranna að standa í dómsmáli við söngvara til að fá staðfestingu á því að það eigi ekki að fara eftir kjarasamaningum.“

Langflestir óperusöngvarar, allavega þeir sem hafa unnið fyrir Íslensku óperuna, eru ósáttir. Er það ekki rétt? 

„Jú, en félagið er auðvitað til þess gert að hægt sé að koma á framfæri okkar skoðunum. Því við erum að tala um stofnun sem er einokunarstofnun. Þetta er eini staðurinn þar sem íslenskir söngvarar eiga séns á að geta komið fram á Íslandi. Og við ætlumst ekki til þess að einstaka söngvarar fórni sér fyrir málstaðinn og neiti hlutverkum sem þeim eru boðin núna, því það getur verið eina tækifærið á ferlinum,“ segir Ása. „Ef þú bara hugsar út í það, á þínum starfsvetvangi eða hlustendur. Ef þér yrði sagt upp störfum, er einhver annar staður á landinu sem þú getur fengið aftur vinnu? Eða snýst þetta um einn og þann eina stað þar sem þú getur fengið vinnu? Og hvaða úrræði hefur þú? Ef brotið er á kjarasamningi, ef það er eineltismál eða annað sem er gagnrýnivert. Hvert geturðu leitað? Við höfum engin úrræði, við höfum engin lýðræðisleg verkfæri til að bregðast við málum sem koma upp.“

Ný þjóðarópera og stjórnendur segi af sér

Ása segir að með núverandi fyrirkomulagi geti stjórn Óperunnar verið skipuð fólki sem hefur aldrei komið nálægt óperurekstri. 

„Fólk sem getur skipað sjálft sig í stjórn, skipað óperustjóra, sem skipar svo á móti í stjórn, í svona lokuðum hring.“ 

Þannig að krafan er, stjórnin segir af sér, óperustjóri segir af sér, ný þjóðarópera ríkisins taki til starfa til að skapa heilbrigt og öruggt starfsumhverfi fyrir söngvara þessa lands? 

„Já, meginkrafan er að þjóðarópera verði stofnuð. Og það er mikill vilji að það gerist,“ segir Ása.  

„Ég held að stéttin beri þá von í brjósti að að minnsta kosti þar til þjóðarópera verður stofnuð að þessir stjórnendur sem deilur hafa staðið um, axli ábyrgð og segi af sér.“ 

Hvorki Steinunn Birna óperustjóri né Pétur stjórnarformaður svöruðu okkur við gerð þessara seinni þáttar um óperusöngvarana.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Ása Fanney Gestsdóttir, söngkona og fyrrverandi formaður Klassís