Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Líta leiðsögn seðlabankans ólíkum augum

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV - Eggert Þór Jónsson
Hækkun stýrivaxta er ætlað að búa í haginn fyrir komandi kjarasamninga segir seðlabankastjóri. Stýrivextir hækkuðu um eitt prósentustig í morgun og var þetta sjöunda hækkunin á rúmlega einu ári.

Stýrivextir eru komnir upp í 4,75 prósent eftir að peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti um eins prósentustigs vaxtahækkun í morgun.

Stýrivextir Seðlabankans náðu sögulegu lágmarki í árslok 2020 þegar þeir voru 0,75 prósent. Vaxtahækkunarferli hófst í fyrravor og síðan þá hefur peningastefnunefnd hækkað vexti í hvert skipti sem hún hefur komið saman, alls sjö sinnum á rúmu ári. Í fyrstu voru hækkanirnar hóflegar, eða um 0,25 prósentustig. En eftir því sem verðbólgan hefur farið úr böndunum hafa hækkanirnar orðið ríflegri. Fyrst um 0,5 prósentustig, svo 0,75 og í síðustu tvö skipti um heilt prósentustig.

Eins og flestir aðrir seðlabankar glímir sá íslenski við verðbólgu vegna hrávöruverðshækkana. Ofan á það bætast stjórnlausar húsnæðisverðshækkanir sem Seðlabankinn hefur ítrekað reynt að kæla og merki eru um að hagkerfið sé farið á fullt eftir faraldurinn. Skortur á vinnuafli hefur til dæmis ekki verið meiri síðan 2007.

Erum með stýritæki sem bíta

Seðlabankastjóri er herskár og segir að vextir verði hækkaðir þangað til náð verði tökum á verðbólgunni. „Eina sem við getum sagt er að við erum tilbúin að gera það sem gera þarf. Við erum með stýritæki, þau bíta. Við erum með sjálfstæði til að beita þeim og við bregðumst við. Vonandi náum við tökum á þessum sem allra fyrst.“

Hversu hátt vextir þurfa að fara ræðst meðal annars að því hver niðurstaðan verður í komandi kjaraviðræðum. Ásgeir segir að með því að hækka vexti sé verið að vinna í haginn fyrir kjarasamninga. „Með því að sýna með trúverðugum hætti að verðbólga sé að fara niður þannig að það þurfi ekki að semja um sérstaka umbun fyrir verðbólgu í næstu kjarasamningum. Þannig að launafólk í landinu geti samið um launahækkanir sem byggja á raunverulegum kaupmætti, raunverulegum krónum, ekki verðbólgukrónum,“ segir Ásgeir.

Hafa skilning á stöðu bankans

Forseti ASÍ og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins eru sammála um að vaxtahækkunin sé slæm og hafi neikvæð áhrif, en þau sýna skilning á þeirri stöðu sem bankinn er í. Koma þurfi böndum á verðbólguna. En þau líta leiðsögn Seðlabankans ólíkum augum. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir ólíklegt til árangurs að fara í störukeppni við seðlabankann. „Ég met það sem svo að trúverðugleiki seðlabankans sé mikill um þessar mundir og við eigum að leggja við hlustir þegar seðlabankinn og forsvarsmenn hans veita okkur svona framsýna leiðsögn.“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segist hafa heyrt þennan söng í aðdraganda kjaraviðræðna áður. „Það er ekki seðlabankastjóri sem gerir kjarasamninga, það eru aðilar vinnumarkaðarins. Það sem við horfum til þegar við gerum kjarasamninga er að jafna leika, að fólk fái hlutdeild í þeim verð verðmætum sem verið er að búa til. Þar er töluvert svigrúm.“