„Kom á óvart hversu fáir sóttu um“

22.06.2022 - 17:49
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Jón Ingvarsson - RÚV
Forsætisráðuneytið hefur auglýst eftir tveimur dómaraefnum til að taka við stöðu íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Kjósa átti um nýjan dómara við dómstólinn í þessari viku á þingi Evrópuráðsins en tveir umsækjendur af þremur drógu umsókn sína til baka í síðustu viku. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, vonar að umsóknir berist um stöðuna.

Aðeins þrír sóttu um embættið þegar það var auglýst í vetur en Ísland þarf að skila inn lista með þremur tilnefningum til dómstólsins til að umsóknin teljist gild. „Ég var auðvitað aðeins hissa þegar að það bárust einungis þrjár umsóknir síðast. Raunar var það þannig líka árið 2013 þegar auglýst var eftir tilnefningu í þetta embætti, þá bárust líka bara þrjár umsóknir,“ segir Katrín. 

Hæstaréttarlögmennirnir Jónas Þór Guðmundsson og Stefán Geir Þórisson drógu umsóknir sínar til baka eftir að hafa farið á fund Mannréttindadómstólsins þann 7. júní, og áður en valnefnd hafði tekið endanlega ákvörðun. Oddný Mjöll Arnardóttir, landsréttardómari sótti einnig um stöðuna og hún heldur sæti sínu á listanum. Katrín fékk upplýsingar í síðustu viku um að umsóknirnar tvær hefðu verið dregnar til baka.  

„Ég get í rauninni ekkert tjáð mig hvers vegna þeir drógu þær til baka, enda eru þau samskipti á milli þeirra og Evrópuráðsins.“

Næst líklega ekki að kjósa nýjan dómara í tæka tíð

Kjörtímabili Róberts Spano, núverandi dómara Íslands við dómstólinn, lýkur í lok október. Að sögn Katrínar gæti skipun nýs dómara dregist fram í janúar. „Þetta tekur auðvitað talsverðan tíma þetta ferli og því líkur með kosningu í þinginu þannig eftir því sem mér skilst rennur okkar staða út 31. október og mögulega gæti þetta eitthvað dregist eftir það en ekki svo mjög.“