Gætu tekið stærri skref en þær sem komu á undan

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Gætu tekið stærri skref en þær sem komu á undan

22.06.2022 - 14:01
Sif Atladóttir er einn af reyndari leikmönnum íslenska landsliðsins sem hefur leik á Evrópumótinu í Englandi í næsta mánuði. Hún er á leið á sitt fjórða stórmót og segir alltaf jafnskemmtilegt að taka þátt í verkefni sem þessu.

Sif ræddi við íþróttadeild RÚV fyrir fyrstu æfingu liðsins í undirbúningi fyrir mótið á mánudag og segir stemninguna góða í hópnum. „Það er gott að koma og hitta stelpurnar. Að þetta sé svona formlega hafið,“ segir Sif.

Sif er á leið á sitt fjórða Evrópumót með landsliðinu. Er þetta alltaf jafn gaman? „Já, alveg klárlega,“ segir Sif. „Það skemmtilega við það að vera enn þá í þessu er að ég er búinn að vera með frá því á fyrsta stórmótinu. Það er gaman að sjá þróunina,“ segir hún og bætir við að kvennaknattspyrnan sé sú íþrótt sem sé að stækka hraðast.

Vita hvað þarf til

Af þessari ástæðu segir hún erfitt að bera saman liðin sem farið hafa á Evrópumótin þrjú, 2009, 2013 og 2017, við liðið sem fer nú á mótið. „Ég held að heilt yfir séu þjóðirnar að jafnast sem sýnir gæðin sem eru að koma upp. Með þennan hóp þá erum við með leikmenn sem eru í stærri liðum og fara yngri út. Þær fá betri skóla, fyrr. Ég held að þetta sé hópur sem á eftir að taka kannski stærri skref en við sem höfum verið á undan. Það þýðir samt ekki að hinir hóparnir hafi verið eitthvað verri,“ segir Sif.

Yngri leikmenn liðsins geta sótt stuðning til þeirra sem hafa verið lengur í liðinu. „Þegar kemur að djúpu lauginni getum við verið til stuðnings,“ segir Sif og bætir við að þær yngri viti að mestu hvað þarf til að ná árangri. „Svo reynum við að flétta okkar reynslu inn í þegar þar að kemur.“

RÚV sýnir beint frá EM kvenna í sumar.