Fannst fásinna að kjósa Ólaf Ragnar í stað konu

Mynd: RÚV / RÚV

Fannst fásinna að kjósa Ólaf Ragnar í stað konu

22.06.2022 - 11:21

Höfundar

Femínisminn er nokkuð falinn í Reykjavíkurborg, segir Tinna Eik Rakelardóttir leiðsögumaður. Hún býður upp á leiðsögutúra um miðbæ Reykjavíkur þar sem gengið er á milli listaverka sem eru af konum eða eftir konur.

Túrinn hefst í Mæðragarðinum við Lækjargötu í Reykjavík þar sem Helga Margrét Höskuldsdóttir úr Sumarlandanum hittir fyrir Tinnu leiðsögumann og fróðleiksþyrsta ferðamenn. Þeir eru bæði innlendir og erlendir, segir Tinna, og bætir við að erlendu ferðamönnunum sem sækja túrinn hafi fjölgað eftir því sem faraldrinum slotaði. 

Íslendingum finnst túrinn alveg jafn spennandi og erlendu ferðamönnunum, að sögn Tinnu, af því að feminíska sagan er nokkuð falin í borginni. Það er því margt sem túrinn varpar ljósi á sem var jafnvel heimamönnum á huldu.

Mamma fyrsta fyrirmyndin

Og það er engin tilviljun að túrinn hefjist í Mæðragarðinum norðan megin við Kvennaskólann, þar sem höggmynd Nínu Sæmundsson, Móðurást, stendur innan um blómabeð, snyrta runna og reisuleg tré.

„Ástæðan fyrir því að ég byrja við þessa styttu, Móðurást eftir Nínu Sæmundsson, er sú að femínisminn minn og femínismi flestra byrjaði með móður þeirra. Ég var alin upp af einstæðri móður sem kom hingað ein suður frá Akureyri í nám og sá um okkur systurnar saman ein. Þaðan hafði ég mjög sterka kvenfyrirmynd. En síðan eru miklu fleiri mæður sem ég hef litið til síðan sem eru sterkar fyrirmyndir. Þegar ég er tíu ára þá er Vigdís Finnbogadóttir að hætta sem forseti og það fara tveir karlmenn og tvær konur í framboð. Mamma var eitthvað tala við okkur systurnar um hvern hún ætlaði að kjósa og hún var eitthvað að pæla að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson, sem mér fannst algjör fásinna af því það er náttúrulega kvennastarf að vera forseti,“ segir Tinna.

Fullt af femínisma í miðborginni

„Ég ákvað að við þyrftum að fókusa aðeins meira á sögu kvenna bæði í Reykjavík og Íslandi bara yfirleitt. Og það hefur bara gengið ágætlega þrátt fyrir covid og allt það sem hefur gengið á undanfarin tvö, þrjú ár,“ segir Tinna.

Feminískur leiðsögutúr Tinnu er ekki langur þó hann sé upplýsandi. Það er margt feminískt að sjá þegar vel er að gáð, en það vill svo heppilega til að það er flest á sama svæðinu í miðbæ Reykjavíkur.

„Það er fullt af feminískri sögu hér í miðbænum og út um alla borg náttúrulega. Við reynum að halda okkur á svona frekar litlum bletti og þar er nóg að finna og mun meira en það sem ég fer yfir.“

Frá Mæðragarðinum er gengið að Bernhoftstorfu þar sem Vatnsberi Ásmundar Sveinssonar stendur. Þaðan er síðan horft yfir Bankastrætið og á Stjórnarráðið, þar sem forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, starfar. Auk þess er farið að Austurvelli, þar sem Ingibjörg H. Bjarnason, fyrsta íslenska þingkonan, stendur vörð mót Jóni forseta Sigurðssyni. Til viðbótar er síðan gengið stytta á milli í Hljómsskálagarðinum þar sem finna má hin ýmsu feminísku verk. 

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum.