„Ekki algengt að vara við hálku á þessum tíma árs“

22.06.2022 - 19:18
Einar Sveinbjörnsson
 Mynd: Stefán Jón Ingvarsson - Skjáskot
Hætta er á hálku í nótt á hæstu fjallvegum norðan- og vestanlands en von er á mjög köldu lofti til landsins. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Vegagerðinni, segir að svo mikill kuldi sé óalgengur á þessum tíma árs.

„Það er ekki frosthætta nema til fjalla en það má búast við kaldara lofti heilt yfir alveg fram að helgi. Þegar það er komið fram yfir 17. júní þá er þetta óalgengt. Þetta hefur þó gerst oft áður en ekki í mörg ár.“

Einar segir að sérstaklega verði varasamt á Steingrímsfjarðarheiði, Öxnadalsheiði og á Möðrdalsöræfum en að líklega verði ekki hálka á Fjarðarheiði. 

Kuldinn sem von er á til landsins er fyrst og fremst bundinn við norðurhluta landsins en mikill strekkingur verður fyrir norðan á morgun. „Það hefur verið að frysta síðustu nætur og hiti farið niður fyrir frostmark,“ segir Einar.

Samkvæmt Veðurstofunni verður hiti á bilinu 2-13 stig næstu daga og ríkjandi norðlæg átt.

urduro's picture
Urður Örlygsdóttir