Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ásgeir: Hækkum eins oft og þurfa þykir

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í morgun um eitt prósentustig, upp í 4,75 prósent. Þetta er sjöunda hækkunin á rúmu ári og seðlabankastjóri segist tilbúinn að hækka vextina eins oft og þurfa þykir til að ná verðbólgu niður.

Þetta er jafnframt annað skiptið í röð sem hækkunin nemur einu prósentustigi. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, er afar skýr með að vextir verða hækkaðir áfram þar til tökum hefur verið náð á verðbólgu. „Við förum eins hátt og við þurfum.“

Skýr skilaboð í kjaraviðræður

Ásgeir segir að með þessu sendi Seðlabankinn skýr skilaboð inn í komandi kjaraviðræður um að hann sé staðráðinn í að ná verðbólgunni niður. Að sama skapi séu skilaboðin til vinnuveitenda og launþega skýr, að semja þurfi um kjarabætur til framtíðar en ekki aftur í tímann. „Þess vegna, þegar það verður samið í kjarasamningum, þurfi ekki að fara fram á sérstakar launahækkanir til að bæta upp fyrir verðbólgu.“

Heppnist þessar aðgerðir Seðlabankans sé sjálfsagt mál að lækka vexti aftur. Ásgeir segist hlynntur því að samið verði til lengri tíma, það sé til þess fallið að auka stöðugleika. „Þannig að launafólk í landinu geti samið um launahækkanir sem byggja á raunverulegum kaupmætti, raunverulegum krónum, ekki verðbólgukrónum.“

Hefur litla samúð með verktökum

Ásgeir segist engar áhyggjur hafa af því að heimili lendi í vanskilum þótt vextir hækki um eitt prósentustig því laun á Íslandi hafi aldrei verið hærri og eiginfjárstaða heimila aldrei sterkari. Þá óttast hann ekki að hækkunin dragi þrótt úr efnahagslífinu. Mikill skortur sé á húsnæði og eftirspurn eftir vinnuafli ekki verið meiri frá 2007, ekki síst í byggingariðnaði. „Ég hef litla samúð með byggingaverktökum að greiða hærri vexti í ljósi þess hve söluverð hefur hækkað og þar með hagnaðurinn hjá þeim.“