Þjónustumiðstöð og bílastæðagjöld við Fjaðrárgljúfur

Fjaðrárgljúfur.
Fjaðrárgljúfur. Mynd: Umhverfisstofnun
Félagið Hveraberg ehf. hefur keypt jörðina Heiði í Skaftárhreppi sem nær yfir ferðamannastaðinn Fjaðrárgljúfur. Kaupverðið er 280 milljónir króna en til stendur að koma upp þjónustumiðstöð, betra bílastæði og hefja innheimtu „hóflegra bílastæðagjalda“.

Þetta kemur fram í kaupsamningi nýrra kaupenda við fyrri landeigendur, annars vegar, og samningi landeigenda við umhverfisráðherra hins vegar, en fréttastofa hefur samningana undir höndum. Kjarninn greindi fyrst frá. Forsvarsmaður félagsins er Brynjólfur Baldursson.

Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá og því hafði íslenskra ríkið forkaupsrétt að landareigninni, samkvæmt 37.gr. laga um náttúruvernd.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landið var í eigu sex einstaklinga; fimm áttu hver um sig 13,3% hlut, en einn 33,32%

Gljúfrið verður friðlýst

Í síðasta mánuði var greint frá því að umhverfisráðherra lægi undir feldi til að melta það hvort hann ætti að nýta forkaupsrétt ríkisins að landinu, en það var þá til sölu.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að ráðherra hefði komist að þeirri ákvörðun að gera það ekki eftir að samkomulag náðist við nýjan kaupanda þess um sameiginlega sýn á þróun svæðisins.

Samningur milli ráðherra og nýs landeiganda var undirritaður 9. júní, degi áður en forkaupsréttur ríkisins rann út. Í því er kveðið á um sameiginlegan vilja ríkis og landeiganda til þess að svæðið verði friðlýst, sem og rétt ríkisins til að kaupa landið ef henni verður ekki lokið „við fyrsta tækifæri“.

Með friðlýsingunni er almannaréttur tryggður og frjáls för ferðafólks um svæðið áfram heimil.

Þjónustmiðstöð, nýtt bílastæði og rukkað inn

Þá eru aðilar sammála um að bílastæði á svæðinu sé ófullnægjandi og mun landeigandi því leggja nýtt bílastæði í samráði við skipulagsyfirvöld. Enn fremur mun hann reisa þjónustumiðstöð á svæðinu, með veitingasölu, salernisaðstöðu og verslun.

Íslenska ríkið hefur á síðustu tíu árum lagt hátt í 50 milljónir króna í uppbyggingu við Fjaðrárgljúfur. Styrkir hafa meðal annars verið nýttir í gerð salernisaðstöðu, göngustíga og útsýnispalla við gljúfrið. Landeigandi tekur við þessum innviðum og annast viðhald og uppbyggingu eftir þörf.

Eitthvað þurfa landeigendur fyrir sinn snúð. Hingað til hefur verið ókeypis að svæðinu, en í samkomulagi ríkis og landeiganda er kveðið á um innheimtu hóflegra bílastæðagjalda, sem „skulu alfarið renna til uppbyggingar þjónustu, reksturs og innviða“. Þá má innheimtan ekki verða til þess að skerða för einstaklinga, sem ekki nýta bílastæðið, um friðlýsta svæðið.

Sífellt færist í vöxt að rukkað sé inn á bílastæði við náttúruperlur landsins, svo við Sólheimasand, í Reykjadal, í Vatnajökulsþjóðgarði og á Þingvöllum. Algengt verð er á bilinu 750-1.000 krónur fyrir einkabíl og gildir það í heilan dag.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í amkomulag ríkisins og nýs landeiganda er sameiginleg sýn á framtíð svæðisins útlistuð.