
Segja að Litáar muni finna vel fyrir gagnaðgerðum
Kalíníngrad er landsvæði á milli Póllands og Litáens sem Rússar ráða. Það er aðskilið öðrum hlutum Rússlands. Þar eru bækistöðvar Eystrasaltsflota Rússa og segjast Rússar hafa komið þar upp kjarnorkueldflaugum.
Nú hefur Rússum verið bannað að flytja vörur sem eru á bannlista Evrópusambandsins til Kalíníngrad eftir járnbrautum sem liggja í gegnum Litáen.
Níkolaj Patrúsjev, formaður rússneska þjóðaröryggisráðsins, sagði í morgun að þetta hefði alvarlegar afleiðingar. Verið sé að móta svarið og litáíska þjóðin fái að finna vel fyrir því. Þá hefur rússneska utanríkisráðuneytið kallað Markus Ederer, sendiherra Evrópusambandsins í Rússlandi, á teppið.
Að fundi loknum fór Ederer fram á að Rússar sýndu stillingu og leystu deiluna við fundarborðið. Rússar krefjast þess að Litáar aflétti þessum takmörkunum þegar í stað en litáísk stjórnvöld segja að þær séu í takt við áður samþykktar refsiaðgerðir Evrópusambandsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu.