Segja að Litáar muni finna vel fyrir gagnaðgerðum

21.06.2022 - 13:10
epa08366724 (FILE) Russian military servicemen march during the  Victory Day parade, marking the 74th anniversary of the victory in the World War II over Nazi Germany, in Red square in Moscow, Russia, 09 May 2019. According to reports on 16 April 2020, Russia postpones the annual Red Square World War Two parade over coronavirus.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Formaður þjóðaröryggisráðs Rússlands hefur hótað Litáum að bann þeirra, við vöruflutningum með lestum til hólmlendunnar Kalíníngrad, hafi alvarlegar afleiðingar. Litáar segja að bannið sé í takt við refsiaðgerðir sem Evrópusambandið hefur samþykkt.

Kalíníngrad er landsvæði á milli Póllands og Litáens sem Rússar ráða. Það er aðskilið öðrum hlutum Rússlands. Þar eru bækistöðvar Eystrasaltsflota Rússa og segjast Rússar hafa komið þar upp kjarnorkueldflaugum.

Nú hefur Rússum verið bannað að flytja vörur sem eru á bannlista Evrópusambandsins til Kalíníngrad eftir járnbrautum sem liggja í gegnum Litáen.

Níkolaj Patrúsjev, formaður rússneska þjóðaröryggisráðsins, sagði í morgun að þetta hefði alvarlegar afleiðingar. Verið sé að móta svarið og litáíska þjóðin fái að finna vel fyrir því. Þá hefur rússneska utanríkisráðuneytið kallað Markus Ederer, sendiherra Evrópusambandsins í Rússlandi, á teppið.

Að fundi loknum fór Ederer fram á að Rússar sýndu stillingu og leystu deiluna við fundarborðið. Rússar krefjast þess að Litáar aflétti þessum takmörkunum þegar í stað en litáísk stjórnvöld segja að þær séu í takt við áður samþykktar refsiaðgerðir Evrópusambandsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Þórgnýr Einar Albertsson