Óvíst hvenær rannsókn á Eimskipi lýkur

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eimskips hefur stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á hvort lög hafi verið brotin við meðhöndlun úrgangs. Óvíst er hvenær rannsókninni lýkur því leita þarf upplýsinga hjá erlendum lögregluyfirvöldum. Eimskip er einnig til rannsóknar í Danmörku þar sem samkeppnisyfirvöld rannsaka landflutningafyrirtæki.

Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eimskips, hefur fengið stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss árið 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskipi. Hilmar var boðaður í skýrslutöku í gær vegna málsins.

Getur varðar við lög um meðhöndlun úrgangs

Héraðssaksóknari gerði húsleit í höfuðstöðvum Eimskips í desember í fyrra eftir að Kveikur fjallaði um niðurrif skipanna á Indlandi. Rannsóknin hefur meðal annars beinst að því hvort háttsemi félagsins geti varðað við lög og reglugerðir um meðhöndlun úrgangs. Umhverfisstofnun kærði málið til héraðssaksóknara eftir að Kveikur upplýsti um það. Eftir að skipin voru seld voru þau send til förgunar í Alang á vesturströnd Indlands þar sem lítið er um mengunarvarnir og starfsmenn vinna við erfiðar og oft lífshættulegar aðstæður.

Einn með stöðu sakbornings 

Þá kemur fram í tilkynningu Eimskips að forstjóri félagsins muni gefa skýrslu hjá héraðssaksóknara sem fyrirsvarsmaður Eimskips en að hann sé ekki grunaður um refsiverða háttsemi. Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu segir upplýsingafulltrúi Eimskips að enginn starfsmaður hafi enn sem komið er farið í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara. Þá sé einn starfsmaður með réttarstöðu sakbornings. Enginn hafi farið í leyfi eða verið sagt upp vegna málsins. Fréttastofa óskaði jafnframt eftir viðtali við fulltrúa félagsins en beiðninni er hafnað þar sem rannsókn standi enn yfir. 

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari verst allra frétta af málinu en segir að vel hafi miðað rannsókn á þeim gögnum sem fengust í húsleitinni í desember. Næsta skref í rannsókninni sé að kalla fólk til skýrslutöku og hafa nokkrir verið boðaðir nú þegar. Ólafur vill ekki gefa upp fjölda þeirra sem eru með stöðu sakbornings í málinu. Fyrir liggi að það kunni að verða óskað eftir upplýsingum frá erlendum lögregluyfirvöldum og óvíst hvenær rannsókninni ljúki.  

Rannsókn danskra samkeppnisyfirvalda

En þetta er ekki eina rannsóknin á Eimskipi. Samkeppnisyfirvöld í Danmörku gerðu í gær húsleit í Eimskip Holding B.V. í Álaborg sem er í eigu Eimskipafélags Íslands hf. Í tilkynningu sem Eimskip sendi kauphöll segir að húsleitin hafi verið gerð í kjölfar dómsúrskurðar. Markmiðið hafi verið að kanna hvort fyrirtækið Atlantic Trucking, sem er sérhæfir sig í landflutningum og er hluti af Eimskipi í Danmörku, hafi tekið þátt í að brjóta dönsk samkeppnislög.

Tekið er fram í tilkynningu Eimskips að húsleitin sé hluti af stærri rannsókn á landflutningafyrirtækjum í Danmörku. Atlantic Trucking aðstoði samkeppnisyfirvöld við rannsóknina og veiti þeir aðgang að þeim upplýsingum sem óskað sé eftir. Þá segir að Eimskipafélag Íslands hf. hafi enga ástæðu til að trúa því að Atlantic Trucking, sem er með um 5% hlutdeild í markaðnum fyrir gámaflutninga á landi, hafi tekið þátt í nokkrum brotum á dönskum samkeppnislögum. 

Fréttastofa sendi Eimskip einnig fyrirspurn vegna þessarar rannsóknar. Í skriflegu svari segir að enginn starfsmaður Eimskips hafi verið boðaður í skýrslutöku vegna dönsku rannsóknarinnar. Þá hafi enginn fengið réttarstöðu sakborning. Þá liggur ekki fyrir til hve langs tíma rannsóknin taki. 

Athugasemd: Bætt hefur verið við fréttina svörum Eimskips vegna rannsóknarinnar í Danmörku.