„Ég er búinn að reyna að vera að kynna handboltann í Kólumbíu, en þetta er að stækka. Höfuðborgin er eiginlega eini staðurinn sem handbolti er spilaður."
Veran í sólinni er virkileg verðskulduð en Stiven hlaut verðlaun sem mikilvægasti leikmaður úrslitaeinvígis úrslitakeppninnar í handbolta. Var hann lykilmaður í liði Vals sem valtaði yfir mótherjana og vann allt sem í boði var. Við förum yfir víðan völl - koma hans til Íslands, hvernig Óskar Bjarni stal honum í handboltann, módelstörf fyrir 66° norður og hvernig leikkerfið hans Snorra Steins er nánast sérsniðið að honum.
Frá Kólumbíu til Vals
Stiven hefur nú þegar leikið fyrir íslensku yngri landsliðin og staðið sig með mikilli prýði. Var hann til að mynda valinn í stjörnuliðið á Opna Evrópumóti U17 ára landsliða árið 2017. En leiðin hans í vinstra hornið er einkar athyglisverð. „Ég er fæddur í Kólumbíu og uppalinn á Íslandi. Við komum reyndar ekki frá Kólumbíu, heldur komum við frá Ekvador en ég var í leikskóla þar. Svo fengum við tækifæri á því að koma til Íslands og það voru betri lífsgæði hérna og við tókum því. Ég var þriggja ára þegar við komum yfir til Íslands, og ég hef verið hérna síðan þá.“
Að gera upp á bak... og svara fyrir sig
Á nýliðnu tímabili sprakk Stiven út en hann fékk aukna ábyrgð í Valsliðinu á báðum endum vallarins. Þar er valinn maður í hverri stöðu en uppaldi Valsarinn bar af þegar mest reyndi á, er hann var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins gegn ÍBV. Hann kann virkilega vel við sig undir stjórn Snorra Steins
„Snorri þekkir styrkleikana mína. Hann veit að ég er sterkur í tvistinum og hversu fljótur ég er á löppunum og að falla niður, þess vegna hefur hann verið að spila mér þar. Hann veit líka hvernig leikmaður ég er – hann veit að ég er fljótur fram. Þannig að hann getur áætlað að það sé góð tenging milli mín og Bjögga, að hafa mann sem er fljótur að kasta fram og mann sem er fljótur fram – þetta smellur bara saman.“