Frá Kólumbíu í hornið á Hlíðarenda

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Frá Kólumbíu í hornið á Hlíðarenda

21.06.2022 - 14:08
Hornamaðurinn knái Stiven Tobar Valencia er einn harðasti Valsari landsins. Stiven virðist hafa rambað á hina fullkomnu blöndu - að hafa gaman af lífinu og að erfiða á sama tíma. Íþróttadeild RÚV ræddi við Stiven er hann spókaði sig á ströndinni á Krít.

„Ég er búinn að reyna að vera að kynna handboltann í Kólumbíu, en þetta er að stækka. Höfuðborgin er eiginlega eini staðurinn sem handbolti er spilaður."

Veran í sólinni er virkileg verðskulduð en Stiven hlaut verðlaun sem mikilvægasti leikmaður úrslitaeinvígis úrslitakeppninnar í handbolta. Var hann lykilmaður í liði Vals sem valtaði yfir mótherjana og vann allt sem í boði var. Við förum yfir víðan völl - koma hans til Íslands, hvernig Óskar Bjarni stal honum í handboltann, módelstörf fyrir 66° norður og hvernig leikkerfið hans Snorra Steins er nánast sérsniðið að honum. 

Frá Kólumbíu til Vals

Stiven hefur nú þegar leikið fyrir íslensku yngri landsliðin og staðið sig með mikilli prýði. Var hann til að mynda valinn í stjörnuliðið á Opna Evrópumóti U17 ára landsliða árið 2017. En leiðin hans í vinstra hornið er einkar athyglisverð. „Ég er fæddur í Kólumbíu og uppalinn á Íslandi. Við komum reyndar ekki frá Kólumbíu, heldur komum við frá Ekvador en ég var í leikskóla þar. Svo fengum við tækifæri á því að koma til Íslands og það voru betri lífsgæði hérna og við tókum því. Ég var þriggja ára þegar við komum yfir til Íslands, og ég hef verið hérna síðan þá.“ 

Að gera upp á bak... og svara fyrir sig 

Á nýliðnu tímabili sprakk Stiven út en hann fékk aukna ábyrgð í Valsliðinu á báðum endum vallarins. Þar er valinn maður í hverri stöðu en uppaldi Valsarinn bar af þegar mest reyndi á, er hann var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins gegn ÍBV. Hann kann virkilega vel við sig undir stjórn Snorra Steins  

„Snorri þekkir styrkleikana mína. Hann veit að ég er sterkur í tvistinum og hversu fljótur ég er á löppunum og að falla niður, þess vegna hefur hann verið að spila mér þar. Hann veit líka hvernig leikmaður ég er – hann veit að ég er fljótur fram. Þannig að hann getur áætlað að það sé góð tenging milli mín og Bjögga, að hafa mann sem er fljótur að kasta fram og mann sem er fljótur fram – þetta smellur bara saman.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú
Snorri og Stiven eftir sigurinn í vor

Venjulega spila hornamenn einnig í horninu í vörninni, en Stiven hefur spilað fyrir miðju varnarinnar hjá Val. „Maður verður svolítið skilinn út undan í vörninni þegar maður er í horninu,“ sagði Stiven og hlær. „Ef maður gerir upp á bak í sókninni getur maður einhvern veginn sannað sig aðeins í vörninni í tvistinum með að brjóta bara á næsta manni. Eða akkúrat öfugt, ef maður skítur í vörninni getur maður tekið gott hraðaupphlaup. Þannig að ég fíla að spila þarna, það kemur manni aðeins meira inn í leikinn.“ 

Valsari í húð og hár - lenti í klónum á Óskari Bjarna 

„Ég byrja að æfa handbolta 2008, en ég var alltaf miklu meiri fótboltamaður heldur en handboltamaður. Óskar Bjarni hefur einhvern veginn alltaf reynt að ná öllum yfir í handbolta. Þannig að ég fór yfir í handbolta út af honum. Það var meira að gerast, einhverjir voru í yngri flokkunum í fótbolta í Val en þeir voru ekki jafn sterkir og í handboltanum.“ 

„Þetta er náttúrulega bara geðveikt, mann hlakkar til að mæta á æfingar og hitta þessa meistara sem eru með manni í liði. Við náum allir svo vel saman, sem gerir okkur kleift að spila svona. Það er liðsheildin, það er enginn skilinn út undan, það eru bara allir eitt þarna.“ 

Stór hluti af Valsliðinu eru uppaldir Valsarar sem hafa spilað saman í áraraðir. „Ég, Arnór og Benni og allir þessir ungu strákar erum fæddir 2000-2002. Við höfum allir spilað saman frá því í æsku þannig við höfum ákveðin tengsl og við vitum hvernig leikmenn þetta eru. Maður veit veikleika og styrkleika. Við náum virkilega vel saman – það er svolítið svoleiðis.“ Á hann þar við Arnór Snæ og Benedikt Gunnar Óskarssyni, syni handboltaheilans Óskars Bjarna Óskarssonar. „Við fluttum beint í Hlíðarnar, 105. Ég kom mér strax inn í fótboltann með strákunum og allir vinirnir æfðu handbolta og fótbolta þannig að ég byrjaði með þeim. Ég bjó í Stigahlíðinni í miðju Valshverfinu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Tumi Steinn Rúnarsson ásamt Stiven

3. deildin í fótbolta kallar 

Stiven er enn nokkuð sprækur í löppunum, en KH (Knattspyrnufélagið Hlíðarenda, venslalið Vals) fékk hann til að skipta yfir fyrir sumarið. Hann hefur þó ekki enn spilað fyrir 3. deildarliðið. „Það er alveg spurning hvort maður fái sénsinn,” segir Stiven og hlær. „ Maður hefur tekið eina og eina æfingu til að halda sér í formi í sumar. En jú jú, maður mætir á einhverjar æfingar, maður er seigur í boltanum.“ 

Stefnan sett út - en fyrst er það Valur 

Stiven hefur vakið mikla athygli með spilamennsku sinni, en hingað til hefur hann haldið báðum fótum kirfilega á jörðinni. „Eins og staðan er núna hefur maður fengið meiri ábyrgð í liðinu. Ég ætla náttúrulega í landsliðið og komast í atvinnumennsku og allt það. En ég þarf náttúrulega að ná öðru góðu season-i. Það þýðir ekkert að vera bara góður á einu season-i. Maður þarf bara að byggja ofan á þetta, og það sem kemur það kemur og þá skoðar maður það.“ 

Tilhugsunin um að spila fyrir A-landsliðið hlýtur að kitla aðeins? „Ég ætla rétt að vona það! Það væri draumur að komast inn í það. Það eru nokkrir meistarar þar sem maður þekkir og væri gaman að spila með þeim. Þetta er mjög gott landslið sem við höfum núna, og maður væri mjög þakklátur að komast í æfingahóp eða hvað sem það væri.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Valur handbolti
Stiven eftir leik með U17 ára landsliðinu ásamt Úlfari Pál Monsa. Stiven var markahæstur í leiknum með níu mörk gegn Pólverjum

En hvernig sér Stiven sjálfan sig sem leikmann? „Ég lít ekkert út fyrir að vera sterkasti maðurinn en ég held að það sé ákveðið mikill styrkur í mér. Ég hef alltaf verið fljótur og greinilega hoppa mjög hátt – ég hef fengið að heyra það nóg!“ segir hann léttur. „Ég held að það sé það, styrkur í löppunum og fljótur fram. Ég er líka ágætur að lesa aðstæður og koma mér í góðar aðstæður.“ 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by 66°North (@66north)

Stiven hefur tekið að sér módelstörf, meðal annars fyrir 66°norður.

Alt muligt mand - 66°norður og kynnir handboltann í Kólumbíu 

Utan vallar hefur Stiven verið að taka að sér módelstörf. „Þetta er bara gaman! Ég byrjaði á þessu þegar ég var í unglingadeildinni og svo bara staflast þetta ofan á hvert öðru. Ég hef fengið fleiri og fleiri gigg. Ég hef tekið þrjú gigg fyrir 66°norður, og hef verið að módelast fyrir World Class, Reykjavík Roses og Adidas.“ 

Stiven er í góðu sambandi við ættingja og vini í Kólumbíu, en handbolti er ekki beint þekktasta íþróttin þar. „Ég er búinn að reyna að vera að kynna þetta,“ segir hann og glottir við tönn. „En þetta er að stækka. Höfuðborgin er eiginlega eini staðurinn sem handbolti er spilaður. Fólk er að átta sig á því hvað þetta er, og þetta er að verða meira og meira recognized í Kólumbíu.“ 

„Ég var búinn að vinna fyrir þessu og eins og sást var maður extra focused í þessari úrslitakeppni. Maður vildi líka taka þrennuna. Það var dálítið svoleiðis.“ 

 Það verður virkilega spennandi að fylgjast með Stiven á vellinum á komandi árum. Eitt er á hreinu – hann er kominn til að vera.