Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flest stöðugildi mönnuð en traust til flugvalla dvínað

21.06.2022 - 09:27
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Isavia gekk vonum framar að ráða starfsfólk til starfa á Keflavíkurflugvelli í sumar, og tókst að ráða í um 97% stöðugilda.

Boðað var til verkfalls á alþjóðaflugvellinum í Brussel í Belgíu í gær, vegna óánægju starfsfólks með álag þar sem illa hefur gengið að fá fólk til starfa til þess að fylla upp í stöðugildi á flugvellinum. Brynjar Már Brynjólfsson, mannauðsstjóri Isavia, segir að hér á landi sé ekki sama vandamál uppi.

„Við réðum um 300 starfsmenn í sumar. Það leit ekki vel út þegar við fórum af stað í byrjun janúar en síðan varð þetta betra. Okkur tókst að manna í 97% af þeim stöðum sem við ætluðum að ráða í fyrir sumarið í sumar,“ segir Brynjar.

Hins vegar er traust fólks til flugvalla sem vinnustaðar að dvína, eftir kórónuveirufaraldurinn.

„Einfaldlega vegna þess að flugvellir fóru í gegnum tvö ár þar sem var mikill samdráttur. Margir héldu að þeir væru að fara að byrja aftur þegar byrjað var að ráða fólk, en síðan kom enn eitt covid-afbrigðið svo það þurfti að draga ráðningar til baka. Þannig við vitum að það mun taka tíma að vinna upp það traust.“

Á álagstíma er mikið um að vera á Keflavíkurflugvelli sem getur leitt til tafa, en ekki umfram það sem eðlilegt þykir.

„Við erum mönnuð eftir farþegaspám sem eru framar björtustu vonum. Við mönnuðum okkur þannig í sumar. Þannig við búumst ekki við álagi hvað það varðar hjá okkur, en Íslendingar eru mjög ferðaþyrstir þannig það er alveg traffík í flugstöðinni og ég mæli alveg með því að fólk gefi sér tíma áður en það fer í flug, en við höfum verið að standast öll okkar þjónustuviðmið og búumst við að gera það í sumar,“ sagði Brynjar Már Brynjólfsson í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.