Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Allt að fimm nýjar Kárahnjúkavirkjanir í orkuskiptin

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Virkja þarf sem nemur fimm nýjum Kárahnjúkavirkjunum á næstu 18 árum til að ná markmiðum um full orkuskipti. Þá er miðað við sviðsmynd Samorku, um að notkun stórnotenda raforku, stóriðju og annars orkusækins iðnaðar haldi áfram að aukast eins og verið hefur. Kárahnjúkavirkjanirnar yrðu aðeins þrjár, ef gert er ráð fyrir núverandi tækni og að orkuþörf almenns markaðar og stórnotenda breytist ekki. Íslendingar standa frammi fyrir erfiðum spurningum um orkuframleiðslu á næstu árum.

Ísland er auðugt af fagurri náttúru, auðlindum og orkugjöfum. Í fyrra voru framleiddar hér um 20 terawattstundir af raforku. 72% af þessari orku voru framleidd með vatnsafli, 26% með jarðhita, og afgangurinn með vindorku og eldsneyti fyrir varaafl.

Langmest af þessari orku er notað í stóriðju. Árið 2020 voru 73% notuð í álver og aðra málmvinnslu, en 4% í gagnaver, samtals 78%.

Aðeins 17% raforkunnar fer til almennrar notkunar, til heimila og venjulegra fyrirtækja, landbúnaðar og fiskvinnslu. 5% orkunnar tapast í kerfinu, jafnmikið og fer til allra heimila í landinu.

Orkuskiptin setja strik í reikninginn

Til er næg orka fyrir núverandi notkun.  En við höfum sett okkur markmið um að ljúka orkuskiptum á næstu 18 árum. Það þýðir að allir bílar, flugvélar og skip verði knúin af einhverju öðru en olíu og bensíni. Og til þess þarf orku. Og þjóðir heims hafa ekkert val, eigi jörðin að haldast byggileg.

Í nýlegri skýrslu á vegum Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins voru settar fram sex sviðsmyndir. Samkvæmt annarri af tveimur sviðsmyndum Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, þurfa Íslendingar að auka orkuframleiðslu um 124 prósent á næstu 18 árum, til að ná markmiðum um orkuskipti. Þá er miðað við að orkunotkun stóriðjunnar og annarra orkufrekra útflutningsgreina haldi áfram að aukast. Þar með eykst framleiðslan úr 20 í 44 terawattstundir. Það jafngildir meira en fimm nýjum Kárahnjúkavirkjunum (4600 GWh). 

Segja má að þetta séu ýtrustu kröfur. Samtökin telja að fyrir full orkuskipti ein og sér, miðað við núverandi tækni og óbreytta orkuþörf, þarf að auka framleiðslu um 82%, eða upp í 36 terawattstundir. Það jafngildir aðeins rúmlega þremur nýjum Kárahnjúkavirkjunum.

Þessa miklu orkuþörf má rekja til framleiðslu á rafeldsneyti fyrir skip og flugvélar. Orkuþörf fyrir allar vegasamgöngur er metin um 2 terawattstundir enda knúin að stærstum hluta með beinni nýting raforku í rafhlöðum. Orkustofnun segir óvíst er hvaða tegund rafeldsneytis verður ofan á fyrir notkun skipa og flugvélar, en orkuþörf þeirra er misjöfn.

Önnur af tveimur sviðsmyndum Orkustofnunar gerir ráð fyrir 14% vexti, en þar er hvorki gert ráð fyrir fullum orkuskiptum né aukinni orkuþörf stórnotenda.

Hvar finnum við orkuna?

Spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir eru því meðal annars þessi: Hvar á að finna orku sem samsvarar þremur, eða fimm nýjum Kárahnjúkavirkjunum?

„Það er ekki eingöngu verið að tala um stórar nýjar vatnsaflsvirkjanir, það er verið að tala um aflaukningu núverandi virkjana, jarðvarmann okkar sem er gríðarlega verðmætur og getur nýst okkur vel inn í framtíðina, ásamt því að skoða vindorkukosti og fleira. Þannig að þetta er vel raunhæft, en það þarf að hefjast handa sem allra fyrst," segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, einn höfunda skýrslu ráðuneytisins.

Auður Önnu-Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, er á öðru máli. Samtökin birtu skýrslu í síðustu viku þar sem reiknaðar eru aðrar sviðsmyndir en þær sem Umhverfisráðuneytið birti í vor. 

„Við sjáum að þetta er í raun bara spurning um val hvaða framtíð við viljum sjá. Framtíðin getur verið björt, en hún getur líka verið mjög svört, eða grá, eins og þessi sviðsmynd um 124% bendir til," segir Auður.

Risastór verkefni framundan

Orkuskiptin þurfa svipaða orku og öll stóriðja í landinu notar nú þegar, um 80%.

„Við þurfum að forgangsraða raforkunotkuninni," segir Auður. „Hvað viljum við nota raforkuna sem við framleiðum í? Aðeins um tuttugu prósent af raforkuframleiðslunni fer raunverulega til íslensks samfélags. Áttatíu prósent fara til erlendra stórfyrirtækja eins og stóriðjunnar."

Sigríður bendir á að stóriðjan sé nú þegar knúin af endurnýjanlegum orkugjöfum, en hinar stóru útflutningsgreinar þjóðarinnar, ferðaþjónusta og sjávarútvegur, séu knúnar af jarðefnaeldsneyti. 

„Þannig að það er í raun ekki umræða um orkumál. Það er umræða um atvinnustefnu, og við skululm hafa í huga að stóriðjan hefur skilað okkur gríðarlega miklum lífsgæðum og velmegun á síðastliðinni hálfri öld. Ég myndi ekki vilja taka samtal um að draga úr hagvexti til framtíðar og færa lífskjör aftur um marga áratugi aftur í tímann," segir Sigríður.

„Þetta eru risastór verkefni," segir Auður. „Þetta eru risastórar ákvarðanir. Og þær verða ekki leystar með aðferðum gærdagsins, að bæta bara, bæta og bæta endalaust í sókn í auðlindir eins og orkuauðlindina."

Fréttin hefur verið uppfærð og fyrirsögn hennar breytt. Í upphaflegu útgáfunni var ekki tekið fram að sviðsmyndirnar byggja á mati hagsmunaaðila.