Að hafa gaman með vinum

Mynd með færslu
 Mynd: Danjel & Galdur

Að hafa gaman með vinum

21.06.2022 - 21:38

Höfundar

Meginstefin eru tvö í Undiröldu kvöldsins, sem kemur þó víða við, þau eru annars vegar hipphopp og hins vegar rokk með sígildum brag.

 


Danjel, Galdur  Gucci bolur

Félagarnir Danjel og Galdur hafa sent frá sér lagið Gucci bolur, stutt stykki þar sem leikgleðin ræður ríkjum. Í tilkynningu sem barst með laginu stendur einfaldlega „Ungir piltar með stóra drauma“. Þetta stenst skoðun enda eru rappararnir tveir aðeins 15 og 16 ára. Þeir minna okkur á hvað skiptir máli í lífinu þegar þeir segja af einlægni, án þess þó að taka sig of alvarlega, „það er svo gaman að hafa gaman með vinum”.


Ungi besti og Milljón – Minna ungur meira bestur

Ungi besti heldur áfram að senda frá sér heilnæm og skemmtileg rapplög í samstarfi við pródúsentinn og þungarokkskempuna Milljón. Í nýjasta lagi tvíeykisins veltir hann upp framvindu tímans: ,,Nýtt ár og hvað hefur gerst? Ég er minna ungur og meira bestur”.


SIGGY  Happy Trees

Í apríl sendi tónlistarkonan Sigurborg Sigurjónsdóttir, SIGGY, frá sér sitt fyrsta lag síðan 2019, lagið Reflections. Nú hefur hún fylgt því eftir með öðru lagi, Happy Trees, og fyrsta stuttskífa hennar mun vera á næsta leiti. 


Hin  Finna til

Hljómsveitin Hin er nýr rafskotinn poppdúett sem samanstendur af þeim Hilmari Árna Halldórssyni og Hönnu Sólbjörtu Ólafsdóttur. Lagið Finna til er fyrsta smáskífan af væntanlegri fyrstu stuttskífu sveitarinnar sem kemur út í haust.


Anna Sóley – I Just Smile

I Just Smile er fyrsta lagið sem Anna Sóley Ásmundsdóttir sendir frá sér í aðdraganda plötunnar Modern Age Ophelia sem kemur út í haust. Það er einvalalið hljóðfæraleikara sem leikur inn á þessa upptöku, Mikael Máni Ásmundsson, Magnús Jóhann Ragnarsson, Birgir Steinn Theodórsson, Magnús Trygvason Eliassen og Rakel Sigurðardóttir. 


Marta Kristín Friðriksdóttir  Annan dag

Söngkonan Marta Kristín Friðriksdóttir syngur nýtt lag eftir Björgvin Þ. Valdimarsson, Annan dag. Textinn við lagið er eftir Karl Olgeirsson sem leikur einnig á píanó, hljóðgervil, slagverk og bassa en Helga Þóra Björgvinsdóttir leikur á fiðlu. 


Ragnar Ólafsson  Letter To An Old Friend

Letter To An Old Friend er nýtt lag eftir Ragnar Ólafsson. Þetta er rokklag sem vísar í sígildar rokksveitir áttunda áratugarins og kemur til með að birtast á þriðju sólóplötu Ragnars. Platan, Mexico, er væntanleg með haustinu.


Storð  Firefields

Firefields er nýtt lag frá hljómsveitinni Storð, sem að eigin sögn er óhrædd við að flakka milli tónlistarstefna. Að þessu sinni tæklar sveitin blúsaða síkadelíu í hressilegu lagi.