Gerði burpees og hljóp á staðnum

epa08131079 Iceland's Olafur Andres Gudmundsson and Hungary's Adrian Sipos (R) in action during the Men's EHF EURO 2020 Handball preliminary round match between Iceland and Hungary, in Malmo, Sweden, 15 January 2020.  EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

Gerði burpees og hljóp á staðnum

20.06.2022 - 09:00
„Það var mjög sérstakt að þurfa að fara úr búningnum, setjast aftur upp í rúm og horfa á leikinn þaðan,“ segir landsliðsmaðurinn Ólafur Guðmundsson um upplifun sína af Evrópumeistaramótinu í janúar. Hann skrifaði á dögunum undir samning við svissneska liðið Amicita Zürich.

 

Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik, skrifaði á dögunum undir fjögurra ára samning við svissneska úrvalsdeildarliðið GC Amicitia Zürich. Þangað kemur Ólafur frá franska stórliðinu Montpellier sem hann gekk til liðs við í fyrra. Frá því Ólafur, sem er orðinn 32 ára gamall, hélt út í atvinnumennsku árið 2010 lék hann lengst af með Kristianstad í Svíþjóð og varð þar þrívegis sænskur meistari.

„Þetta snerist ekki bara um hvað hentaði mér best heldur einnig fjölskyldunni,“ segir Ólafur um ástæðu þess að Zürich varð fyrir valinu. „Þetta var í raun sambland af öllu. Fjölskylduumhverfið þarna, lengd samningsins og staðsetningin.“

Ólafur segir forráðamenn liðsins stórhuga en liðið endaði í fimmta sæti svissnesku deildarinnar í vor. „Það er ákveðin uppbygging í gangi og metnaður fyrir því að gera góða hluti. Mér leist vel á það allt,“ segir Ólafur.

Stefnan hjá Ólafi er að spila mikið með Zürich, vera fyrsti kostur í skyttustöðunni. „Það er minn metnaður allavega, ég held ég sé hugsaður sem lykilmaður í þetta lið, þó maður þurfi alltaf að sanna sig og verði að standa undir því.“

Sér ekki eftir ævintýrinu

Tímabilið með Montpellier gekk ekki eins og hann hefði vonað. „Það gekk vel til að byrja með þar sem ég var með flott hlutverk og passaði vel inn í hlutina. Fram að jólum gekk upp og niður og ég glímdi við einhver meiðsli en náði mér góðum fyrir EM,“ segir Ólafur. Á Evrópumeistaramótinu í janúar greinist hann með Covid-19 eftir þrjá leiki og missti af næstu fjórum leikjum. Hann spilaði þann síðasta gegn Noregi og þá tóku sig upp meiðsli í kálfa. Meiðslin voru ekki alvarleg en þrýst var á Ólaf að spila. „Þá byrjar þessi meiðslahrina sem stendur út tímabilið,“ segir hann.

Fannstu fyrir minni skilningi á meiðslunum hjá Montpellier en annars staðar?

„Í mínu tilviki fannst mér ekki alltaf verið sýndur skilningur á því hvernig mér leið eða hvernig tilfinningin væri í líkamanum. Það var sagt að samkvæmt dögum ætti ég að vera klár núna og allt sett af stað þó mér liði ekki alltaf eins og ég væri tilbúinn,“ segir Ólafur. „Stundum var ég sendur af stað og lenti svo aftur á byrjunarreit. Það er náttúrulega mjög erfitt, bæði andlega og líkamlega.“

Ólafur sér þó ekki eftir því að hafa gengið til liðs við Montpellier. „Þetta er stór og mikill klúbbur og þetta var mikið ævintýri. Þetta gekk ekki en ég sé ekki eftir þessu í eina sekúndu.“

 

epa09714640 Ymir Gislason (L) and Olafur Andres Gudmundsson (C) of Iceland in action against Thomas Solstad of Norway during the Men's European Handball Championship match for the fifth position between Iceland and Norway at the MVM Dome in Budapest, Hungary, 28 January 2022.  EPA-EFE/Zsolt Szigetvary HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI
Ólafur og Ýmir Örn Gíslason taka vel á því í vörn íslenska landsliðsins.

 

Pakkað í tösku upp á von og óvon

Eins og áður sagði greindist Ólafur með Covid á EM í janúar eins og þónokkrir liðsfélagar hans. „Það var mjög súrrealískt allt saman,“ segir Ólafur. „Fyrstu skilaboðin voru þau að þetta yrðu einhverjir 4-5 dagar og á sama tíma spilar liðið mjög vel. Maður fór þá að drifa sig og gera allt til að verða klár, jafnvel farinn að google-a einhver trikk til að vinna bug á þessum prófum,“ segir Ólafur en ná þurfti ákveðnum gildum á prófunum til að komast aftur inn á völlinn. „Maður hélt alltaf að daginn eftir myndi maður ná þessum gildum en þau rokkuðu bara upp og niður eins og jójó og enginn skildi neitt í þeim.“

Þegar leið á einangrunina gerði Ólafur allt til að halda sér klárum fyrir næsta leik ef hann skildi losna. „Maður reyndi að gera einhver burpees, hlaupa á staðnum og svo fengum við einhver hjól þarna inn. Fyrir einn leikinn – mig minnir á móti Króatíu – voru öll gildin á leið í rétta átt og ég var búinn að pakka skónum niður í tösku, fara í sturtu, í búninginn og beið nánast bara við hurðina,“ segir Ólafur en allt kom fyrir ekki og hann missti af leiknum. „Það var mjög sérstakt að þurfa að fara úr búningnum, setjast aftur upp í rúm og horfa á leikinn þaðan,“ segir Ólafur. „Þetta var rússíbani fyrir alla sem komu að þessu.“

Gef alltaf kost á mér

Að endingu segist Ólafur hafa sama neista og metnað fyrir því að spila með landsliðinu. „Ég mun alltaf gefa kost á mér í landsliðið á meðan ég spila handbolta. Það er minn metnaður og ég vona innilega að ég verði áfram í þessu liði því það eru frábærir hlutir í gangi og spennandi hlutir fram undan,“ segir Ólafur og segir viljann fyrir því að spila með landsliðinu vera enn þann sama og þegar hann byrjaði með því. „Sérstaklega núna þegar það er þessi andi í liðinu. Það er ótrúlega gaman að hitta strákana og góð blanda af ungum strákum og okkur sem hafa verið lengur í þessu.“