Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Ekki nóg að heyra bara með öðru eyranu“

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós
Sigríður Matthildur Aradóttir, sem er heyrnarlaus, hefur haft betur gegn Sjúkratryggingum Íslands. Hún kærði stofnunina þegar henni var neitað um kuðungsígræðslu á hægra eyra í lok síðasta árs. 

Sigríður fékk kuðungsígræðslu á vinstra eyra árið 2005. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu beiðni hennar um sams konar ígræðslu á hægra eyra. Stofnunin taldi ekki brýna nauðsyn á slíkri aðgerð því hún hefði þegar fengið eina ígræðslu. Sigríður kærði Sjúkratryggingar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

„Úrskurðarnefndin kallar svo eftir viðbrögðum frá Sjúkratryggingum ásamt því að fá öll afrit af mínum sjúkragögnum. Ég fæ að sjá svar Sjúkratrygginga við minni kæru og þeir standa fast á sínu, telja aðgerðina ekki nauðsynlega í mínu tilfelli. “ 

Hún ákveður þá að andmæla niðurstöðu Sjúkratrygginga sem úrskurðarnefnd velferðarmála ógilti. „Þetta þýðir fyrir mig að niðurstaða þeirra er bara felld úr gildi og ég fell undir það að fá að fara í þessa aðgerð samkvæmt úrskurðarnefnd velferðarmála.

Vonast eftir viðhorfsbreytingu

Sigríður fagnar sigrinum og bindur vonir við að komast í aðgerðina í haust. Hún telur málsmeðferð Sjúkratrygginga vera undarlega og það hljóti fleiri að vera í sömu sporum og hún.

„Vonandi þýðir þessi niðurstaða bara breytt viðhorf til fólks sem er að berjast við heyrnarskerðingu. Það sé ekki bara litið svo á að það sé nóg að heyra með öðru eyra. Ég er að vonast til að þessi úrskurður breyti ekki bara lífinu fyrir mig heldur líka fyrir þá sem eftir koma og eru í sömu sporum. “