
Björn Leví ræðukóngur Alþingis
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Björn Leví hlýtur nafnbótina. Hann var einnig ræðukóngur þingveturinn 2017-2018. Síðastliðin þrjú ár hefur Birgir Þórarinsson úr Miðflokki verið ræðukóngur. Eftir vistaskipti yfir í Sjálfstæðisflokkinn skömmu eftir kosninga hefur hins vegar minna farið fyrir honum í þingsal, og er Birgir nú um miðja deild.
Eins og gengur, kveður meira að stjórnarandstöðuþingmönnum en stjórnarliðum í ræðustól Alþingis. Níu málglöðustu þingmennirnir koma allir úr röðum stjórnarandstöðuflokkanna.
Á eftir Birni Leví fylgja tveir flokksbræður hans, Gísli Rafn Ólafsson sem talaði í 1.357 mínútur og Andrés Ingi Jónsson í 1.243 mínútur. Af stjórnarþingmönnum talaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mest, eða í 792 mínútur.
Þrátt fyrir að konur séu nær helmingur þingmanna er aðeins ein kona á topp tíu listanum, Helga Vala Helgadóttir þingkona Samfylkingarinnar, en hún er í sjöunda sæti með samanlagðan ræðutíma upp á 843 mínútur.
Á hinum enda listans er yngsti þingmaðurinn, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir úr Framsóknarflokknum sem talaði í 58 mínútur, og elsti þingmaðurinn Tómas A. Tómasson, Flokki fólksins, sem talaði í 80 mínútur. Því næst kemur Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Sjálfstæðisflokki, sem talaði í 84 mínútur, Bjarni Jónsson úr Vinstri grænum, sem talaði í 92 mínútur, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sem talaði í 99 mínútur.
Aðeins eitt frumvarp fellt
205 frumvörp voru lögð fram á þinginu þennan vetur og varð 81 þeirra að lögum. Aðeins eitt þeirra var fellt, en tvö voru afturkölluð. Örlög flestra frumvarpa, 121 talsins er hins vegar að daga uppi í nefnd – óútrætt eins og það er kallað.
Þá voru 22 skriflegar skýrslur lagðar fram á þinginu og þrjár munnlegar skýrslur ráðherra fluttar. Níu beiðnir bárust um skýrslur, þar af sex til ráðherra og þrjár til ríkisendurskoðanda.
Leiðrétting: Í upphaflegri sagði ranglega að Tómas A. Tómasson hefði talað manna minnst. Það hefur nú verið leiðrétt.