Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Björn hafði betur gegn ríkinu

20.06.2022 - 16:33
Björn Þorláksson
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Björn Þorláksson, blaðamaður á Fréttablaðinu, hafði betur gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann stefndi ríkinu fyrir ólögmæta niðurlagningu á starfi sínu sem upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar á síðasta ári. Björn fær greiddar 6,8 milljónir í miskabætur og 2,5 milljónir í málskostnað.

Björn var ráðinn til Umhverfisstofnunar í byrjun árs 2017 og var með starfsstöð á Akureyri. Starf hans var lagt niður í byrjun árs í fyrra. Aðdragandi málsins er að Björn var kallaður fyrirvaralaust á fund með forstjóra og mannauðsstjóra Umhverfisstofnunar í nóvember 2020. Þar var honum afhent bréf þar sem honum var tilkynnt um verulegar breytingar á verkefnaskipulagi og áherslum tengdum starfi hans sem upplýsingafulltrúa. Honum var boðið að taka þátt í hæfnismati sem hann þáði en með þeim fyrirvara að matið stæðist lög sem hann taldi leika verulegan vafa á.

Þann 15. janúar á síðasta ári var Birni svo tilkynnt að leggja ætti starf hans niður um næstu mánaðamót. Rúmum mánuði síðar auglýsti Umhverfisstofnun laust til umsóknar starf sérfræðings í stafrænni þróun, fræðslu og miðlun. Segir í stefnu málsins að verkefnalýsing þessa nýja starfs hafi að flestu leyti verið sú sama og þau verkefni sem Björn sinnti fyrir stofnunina. Taldi Björn að ákvörðun stofnunarinnar um að leggja niður starf hans hefði verið ólögmæt þar sem engar forsendur hefðu verið til þess í lögum. 

Í dómnum segir að Umhverfisstofnun hafi ekki lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni um að leggja niður starf Björns. Mannauðsstjóri stofnunarinnar staðfesti einnig fyrir dómi að ekkert hefði verið skoðað innan stofnunarinnar að gera Birni kleift að sækja endurmenntun eða endurþjálfun svo að hann gæti fullnægt þeim breyttu kröfum sem fyrirhugað var að gera til þess starfsmanns sem myndi gegna nýja starfinu sem í raun tók við starfi upplýsingafulltrúa.

Birni tókst ekki að finna starf við hæfi á Akureyri og þurfti því að flytja búferlum til Reykjavíkur þar sem hann fékk starf hjá Fréttablaðinu 1. september 2021. Fjártjónstímabil bótakröfu Björns miðast því við 1. maí 2021 til 31. ágúst 2021 og fékk hann hana greidda að fullu.