Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

18 banaslys við mannvirkjagerð frá 2000

20.06.2022 - 22:32
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
54 banaslys hafa orðið á vinnustöðum hér á landi frá aldamótum og þar af 18 á byggingarsvæðum. Vinnuslysin eru of mörg og unnt er að fækka þeim að mati forstjóra Vinnueftirlitsins. Hún hefur trú á að með samstilltu öryggisvitundarátaki sé hægt að útrýma banaslysum í öllum greinum.

Tilkynnt vinnuslys miðast við að starfsmaður verði ófvinnufær í einn eða fleiri daga um fram þann dag sem slylsið varð.

Starfsfólki í mannvirkjagerð hefur fjölgað mikið á síðustu árum og má búast við enn meiri fjölda á næstu árum. Fækkun síðustu tveggja ára má rekja til heimsfaraldurs. Annars hefur aukningin verið ár frá ári. Frá árinu 2014 hafa um 1400 manns slasast við byggingarvinnu hér á landi.

Hann Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins, segir markvisst unnið að því að fækka slysum með margvíslegum aðgerðum sem séu í sífelldri endurskoðun.

„Við erum að sjá aðeins of mörg vinnuslys í þessari grein. Þegar að við sjáum hættu þá er starfsemin stöðvuð. Eða þá að það er gefinn mjög stuttur fyrirvari um úrbætur.“

Byggingargeirinn hafi sérstöðu því vinnusvæðin færist til og fari í gegnum mismunandi hættustig. Þau séu þannig síbreytileg, ólíkt mörgum öðrum vinnustöðum.

„Og þar eru yfirleitt svona meiri hættur en almennt gerist í önnars konar starfemi.“

Samtals hafa 54 látist við vinnu á landi á þessum tíma og þar er byggingariðnaðurinn ansi frekur. Hann hefur kostað 18 mannslíf frá árinu 2000.
 
„Ég held að svona heilt yfir séum við á réttri leið. Vonandi gengur okkur betur til framtíðar að ná böndum á þessu og fækka vinnuslysum  í  þessari starfsgrein.Við höfum því miður verið að sjá á síðustu tveimur árum tvö banaslys á ári sem er alltof mikið. Við viljum vera með engin banaslys og það er að sjálfsögðu það sem við viljum skoða sérstklega. Ég hef trú á því að með skipulögðu og kerfisbundnu vinnuverndarstarfi innan fyrirtækjanna þar sem að allir taka þátt, atvinnurekendur, stjórnendur og starfsfólkið sjálft að þá munum við ná árangri.“

Það sem er sammerkt með slysnum er að ekki hefur verið gætt nægilega vel að öryggismálunum.

„Það er nú yfirleitt svona stefið í þessu því miður. Það er misjafnt eftir löndum hvaðan menn koma hvernig öryggisvitundin er í hverju landi. Það er ekki það að hún sé verri heldur en hér. Hún er bara öðruvísi og það þurfum við að samhæfa. Og það er áskorun sem að vinnustaðir þurfa að skoða sérstaklega.“

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV