Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag konu í 15 mánaða fangelsi fyrir innflutning á rúmu kílói af kókaíni, sem ætlað var til sölu hér á landi.
Konan kom til landsins með flugi frá París í apríl og faldi efnið innvortis.
Fyrir dómi játaði konan brot sín skýlaust en hún hefur ekki áður komist í kast við lögin. Var það mat saksóknara að hún hefði ekki verið eigandi efnisins né tekið þátt í skipulagningu með öðrum hætti en að hafa samþykkt að flytja þau til landsins gegn gjaldi. Fyrir vikið krafðist saksóknari vægustu refsingar sem lög leyfa.
Héraðsdómur dæmdi konuna í 15 mánaða óskilorðsbundið fangelsi, en frá því dregst gæsluvarðhald sem hún hefur sætt frá í apríl. Þá var konunni gert að greiða rúmar 1,6 milljónir króna í sakarkostnað, þar af 976.500 krónur í þóknun verjanda síns.