Mynd: EPA

Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.
Stoltenberg: „Úkraínustríðið gæti varað í mörg ár“
19.06.2022 - 05:32
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að stríðið í Úkraínu geti varað í mörg ár. Frá þessu greinir þýska dagblaðið Bild.
„Við verðum að vera búin undir að þetta verði margra ára stríð,“ sagði Stoltenberg og bætti við að meðan á stríðinu stæði mætti ekki draga úr stuðningi við Úkraínumenn.
Áfram verði að senda Úkraínumönnum hergögn og nauðsynjar þótt það verði kostnaðarsamt, sagði Stoltenberg sem ítrekað hefur talað fyrir því að aðildarríki sendi hergögn til Úkraínu. Kostnaður fyrir heimsbyggðina verði umtalsvert meiri, nái Vladímír Pútín Rússlandsforseti hernaðarlegum markmiðum sínum í landinu.
Stoltenberg sagði einnig mikilvægt að hafa í huga að kostnaður við hækkandi vöruverð í heiminum fölni í samanburði við hvað stríðið kosti almenning í Úkraínu.