Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sigurður Ingi segir aðstæður á Baldri óboðlegar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tíðar bilanir í Baldri vekja ugg um að ferjan sé ekki nægilega örugg, segir innviðaráðherra. Vandræðin með Breiðarfjarðarferjuna er verkefni sem þarf að leysa hratt og mikilvægt er að fólk í öllum byggðum landsins upplifi sig öruggt, segir formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

„Ég er sammála því að það verði að skoða þetta ítarlega því þetta eru óboðlegar aðstæður fyrir alla.“
-  Sigurður Ingi Jóhansson innviðaráðherra

Sigurður Ingi undirstrikar að það sé búið að vera að leita að nýju skipi í eitt og hálft ár. 

„Ef það hefði fundist þá væri það komið. Þess vegna eru menn að reyna að þrauka, en það er nauðsynlegt að það skip sem í boði er, Baldur, að hann standist þá allar kröfur og sé öruggur. Og tíðar bilarnir hljóta að vekja manni ugg um að svo sé ekki. En þessar ítrekuðu bilanir hljóta að vekja upp spurningar hvort skipið sé öruggt. Og ég tala nú ekki um þegar við komum inn í veturinn.“ 

Kemur til greina að láta smíða bara nýtt skip? 

„Já, það er í raun og veru það sem við stefnum að. Fyrir nokkrum árum stóð til að hætta siglingum þarna en við höfum skipt um þá stefnu. Þess vegna er Herjólfur III að fara að sigla þarna þegar það verður búið að breyta höfnunum í Hólminum og Brjánslæk. Það tekur tíma og kostar fjármuni. Síðan kemur Herjólfur í þær siglingar á meðan beðið er eftir nýju skipi, því við þurfum að smíða nýtt skip, öruggara skip, sem stenst líka kröfur okkar í orkuskiptum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, segir brýnt að bregðast fljótt við þeim vanda sem steðjar að Vestfirðingum vegna takmarkana á ferjunni Baldri. Hann segir öryggistilfinningu þá mikilvægustu fyrir samfélög í heild.

„Því er ekki gott þegar svona mikilvægir samgönguinnviðir eins og Baldur er, að hann sé að bila reglulega. Þetta er nú ekki fyrsta stoppið sem kemur upp svona bilun. Við erum greinilega ekki á góðum stað þarna og það þarf vissulega að bæta úr til þess að tryggja öryggi og líka til að tryggja að svona mikilvæga samgönguinnviði á Vestfjörðum,“ segir Vilhjálmur. Mikilvægt sé að breytingar á höfnum sem ferjan þarf að leggjast að gangi hratt eftir til að ekjubrýrnar þar passi fyrir fleiri skip - þá er hægt að bjóða upp á fleiri möguleika.

„Það hefur tækifæri til að fá nýrra skip og ég tala nú ekki um ef það væri nýorkuskip. Það væri enn betra. En þetta er verkefni sem þarf að leysa hratt.“ 
- Vilhjálmur Árnason

Baldur bilaði í gærmorgun, rétt fyrir utan Stykkishólm, með rúmlega hundrað farþega innanborðs. Skipið var fest við akkeri um 2-300 metra frá landi í næstum sex klukkustundir og voru farþegar allt annað en sáttir þegar þeir loks komust í land. 

„Þetta er óboðlegt ástand. Þetta getur ekkert gengið svona lengur, þetta er bara fullreynt. Þetta skip er bara ekki hægt að bjóða okkur upp á lengur. Það er margbúið að sýna sig að það þarf að bregðast við,“ sagði Skjöldur Pálmason, framkvæmdastjóri útgerðarinnar Odda á Patreksfirði, þegar hann neyddist til að fara aftur í land í Stykkishólmi eftir sex tíma dvöl um borð.  

„Það sjá allir sem þurfa að nota þetta skip og þurfa að nota þetta skip að það er þörf fyrir alvöru skip hérna. Og maður skilur bara ekki af hverju það þarf að gera þetta með þessum hætti.“
- Skjöldur Pálmason 

Baldur siglir seinni ferð dagsins í dag með viðkomu í Flatey, samkvæmt áætlun. Í tilkynningu frá Sæferðum segir að vélstjórar Baldurs hafi ásamt sérfræðingi unnið að viðgerð fram á nótt. Búið sé að taka prufusiglingu og fleiri prófanir gerðar sem sýni að allt virki.  

Mynd með færslu
 Mynd: Haakon Broder Lund - .