Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kólumbíumenn kjósa forseta í dag

A supporter places on his motorbike a decal featuring presidential candidate Rodolfo Hernandez, a day ahead of the country's presidential run-off, in Bucaramanga, Colombia, Saturday, June 18, 2022.  Polls show rival Gustavo Petro and Hernandez, both former mayors, practically tied since advancing to the June 19th runoff following the first-round election in which they beat four other candidates. (AP Photo/Ivan Valencia)
 Mynd: AP - RÚV
Kólumbíumenn ganga til forsetakosninga í dag, sunnudag. Kosið verður milli vinstri mannsins Gustavo Petro og milljarðamæringsins Rodolfo Hernandez, en hvorugur þeirra fékk nógu hátt hlutfall atkvæða í forsetakosningum í landinu í lok maí til þess að setjast í forsetastólinn.

Því var boðað til nýrra kosninga og fá landsmenn nú að velja milli tveggja sterkustu frambjóðendanna. Nokkur óvissa þykir einkenna kosningarnar og spá sérfræðingar því að óvenju margir skili auðu eða mæti ekki á kjörstað í dag.Frambjóðendur rótgróinna íhalds- og frjálslyndra flokka í landinu hlutu ekki næg atkvæði í fyrri hluta kosninganna og eiga því hvorugan frambjóðendanna sem kosið verður á milli í dag.

Fyrsti vinstri forsetinn eða „kólumbíski Donald Trump“

Frambjóðendurnir tveir eru mjög ólíkir, Petro yrði fyrsti vinstri sinnaði forseti Kólumbíumanna næði hann kjöri. Hernandez hefur verið lýst sem óútreiknanlegum viðskiptamanni, en hann hefur ekki komið að stjórnmálum áður. Hann hefur verið kallaður  hinn kólumbíski Donald Trump í heimalandinu, vegna líkinda hans við fyrrverandi Bandaríkjaforsetann. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir Kólumbíumönnum að óttast sé að óeirðir brjótist út í kjölfar þess að niðurstöður kosninganna verði kynntar, ekki síst þar sem litlu munaði á fylgi frambjóðendanna í kosningunum í maí.

Mikil ólga hefur verið í landinu undanfarið. Mannskæð mótmæli brutust út fyrir ári gegn Ivan Duque, forseta Kolumbíu og ríkisstjórninni, sem sökuð voru um úrræðaleysi gagnvart djúpri efnahagskreppu og heimsfaraldri kórónuveiru.