Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Föðurlausu börnin“ á Grænlandi krefjast skaðabóta

Mynd af húsum í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Snjór. Fáni Grænlands blaktir yfir.
 Mynd: Danmarks Radio
Grænlenskir þingmenn hafa tekið undir kröfu hóps Grænlendinga, sem vilja að danska ríkið greiði sér skaðabætur. Fólkinu var meinað að kynnast feðrum sínum þar sem þau voru getin utan hjónabands á fyrri hluta 20. aldarinnar.

Grænlenska ríkisútvarpið greinir frá.

Lagalega óskyld feðrum sínum ef foreldrarnir voru ógiftir

Fólkið fæddist ýmist fyrir 1963 á vestur Grænlandi eða fyrir 1974 annarsstaðar á eynni, en þá voru í gildi lög sem bönnuðu ógiftum mæðrum að skrá faðerni barna sinna.

Börnin hafa því frá fæðingu verið lagalega óskyld feðrum sínum, máttu hvorki erfa þá né taka upp föðurnafn. Börnunum átti lögum samkvæmt að halda alfarið frá feðrum sínum og máttu ekki vita hver blóðfaðir þeirra væri.

Þau tuttugu og sjö sem standa að bótakröfunni fyrir hin svokölluðu „föðurlausu börn“, vilja að danska ríkið greiði hverju þeirra hundrað tuttugu og fimm þúsund danskar krónur í skaðabætur vegna laganna.

Átta þúsund „föðurlaus börn“

Samkvæmt skýrslu barnamálaráðuneytisins frá 2016 var alls um átta þúsund manns meinað skrá faðerni sitt frá árinu 1911 til 1974 í danskri lögsögu. Árið 2014 voru svo samþykkt lög sem gerðu ófeðruðum Grænlendingum kleift að skrá faðerni sitt og máttu þau þá loks erfa feður sína.

Í apríl á þessu ári steig svo fram hópur ófeðraðra Grænlendinga, sem krefst nú að danska ríkið biðji þau afsökunar og greiði þeim skaðabætur fyrir að mega, lögum samkvæmt, ekki þekkja feður sína.

Lögmaður þeirra er Mads Pramming, en hann er einnig lögmaður þeirra Grænlendinga sem krefjast bóta í svokölluðu „lykkjuhneykslis máli“ sem komst í hámæli fyrr í mánuðinum.