Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Þetta er lélegur, gamall og skítugur afdaladallur“

18.06.2022 - 19:00
Mynd: Anna Melsteð / RÚV
Farþegar sem þurftu að hírast um borð í farþegaferjunni Baldri í sex klukkustundir spöruðu ekki stóru orðin þegar þau komust loks í land. Kona sem notar ferjuna reglulega lýsir henni sem gamalli druslu og afdaladalli. Baldur varð vélarvana rétt utan við hafnarmynnið á Stykkishólmi um 300 metrum frá landi rétt eftir klukkan níu í morgun. Um borð voru 102 farþegar auk áhafnar. 

„Það fór í honum gírinn í þetta skiptið,“ segir björgunarsveitarmaðurinn Einar Strand. „Það er nú kannski komið að því að við þurfum að fara að hugsa eitthvað um þetta mál. Þetta eru 116 sálir um borð að mér skilst.“

Baldur var að leggja í sína venjubundnu laugardagsferð en náði ekki lengra en rétt út fyrir Súgandisey. Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð út auk allra Björgunarsveita á Snæfellsnesi.

„Síðast þegar ég tók þennan Baldur þá var ég mjög hissa á því hvað hann var lélegur, gamall og skítugur afdaladallur. Þetta er eins og að ferðast aftur í tímann. Þetta er bara gömul drusla.“ 
- Freyja Bergsveinsdóttir

„Baldur er á reki hérna fyrir framan Stykkishólmshöfn. Með bilaða vél. Og alls ekki í fyrsta skipti,“ segir Sigurður Páll Jónsson, varaþingmaður Miðflokksins, sem sat einmitt á Alþingi fyrir um mánuði og spurði þá innviðaráðherra hvað ætti að gera í málefnum Baldurs, til að koma í veg fyrir svona óhöpp. 

„Í þessum fyrirspurnartíma sagði hann mér að það fyndist bara ekki neitt skip. Þannig að það er ansi lítið að ske í málinu annað en að það ætti að smíða nýtt skip sem tæki mörg ár,“ segir Sigurður Páll. 

Kveikur fjallaði um Baldur síðasta vetur og þar var varpað ljósi á margs konar vankanta við hönnun og ástand skipsins. Búið er að ákveða að gamli Herjólfur taki við af Baldri haustið 2023. Seinnipartinn í dag var Baldri svo siglt aftur til hafnar í Stykkishólmi fyrir eigin vélarafli í samráði við Landhelgisgæsluna. Farþegar voru allt annað en sáttir þegar þeir komu í land, eftir að hafa verið á reki í um sex klukkutíma. 

„Þetta er óboðlegt ástand. Getur ekki gengið svona lengur. Ég held að þetta sé fullreynt.“ 
- Skjöldur Pálmason, farþegi

„Það er skömm að þessu. Þetta skip er í rúst. Það þarf að rannsaka þetta. Hvenær var þetta skip síðast yfirfarið? Það tók fjóra tíma að draga akkerið út.“
- Jaim, farþegi frá Ísrael 

Bæjarstjórn Vesturbyggðar og sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps sendu frá sér harðorða yfirlýsingu í dag þar sem segir að það sé verið að leggja líf fólks í hættu með því að sigla skipinu og að stjórnvöld verði að bregðast við með tafarlausum úrbótum.