Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sir Paul McCartney er áttræður í dag

18.06.2022 - 12:49
Paul McCartney á tónleikum í Santiago í Chile í mars. - Mynd: EPA-EFE / EFE
Goðsögnin og bítillinn Paul McCartney er áttræður í dag. Mikil hátíðahöld verða í Liverpool alla helgina í tilefni tímamótanna.

Sir James Paul McCartney fæddist í Liverpool 18. júní 1942 og fagnar því áttræðis afmæli sínu í dag. Og hann er ekki sá eini sem fagnar því í heimaborg hans Liverpool verður hátíðardagskrá víða um borg alla helgina. Í gær og í dag verða tónleikar í Cavern club, klúbbnum sem Bítlarnir spiluðu á nærri 300 sinnum. Og á morgun verða sérstakir tónleikar, þar sem aðeins McCartney-lög verða spiluð. Þá er boðið upp á sætaferðir, þar sem komið verður við á öllum helstu stöðum sem tengjast goðsögninni. McCartney er einn áhrifamesti tónlistarmaður sögunnar. Enn þann dag í dag njóta Bítlarnir gríðarlegra vinsælda víða um heim og saman sömdu McCartney og John Lennon heitinn nær öll lög hljómsveitarinnar. 

„Þetta verður allt í lagi, Let it be.“ 

Á rúntinum um Liverpool með þáttarstjórnandanum og skemmtikraftinum James Corden svipti McCartney hulunni af fyrsta laginu sem hann samdi. Hann var sumsé 14 ára þegar hann samdi sitt fyrsta lag sem heitir I lost my little girl. McCartney lýsti því einnig hvernig hugmyndin að einu þekktasta lagi Bítlanna kviknaði. Móðir McCartneys lést úr brjóstakrabbameini þegar hann var aðeins 14 ára. Á sjöunda áratugnum kom hún til hans í draumi og sagði hughreystandi: „Þetta verður allt í lagi, Let it be.“ 

 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV