„Mér finnst ég ekki vita best“

Mynd: Eva Schram / Brynja Hjálmsdóttir

„Mér finnst ég ekki vita best“

18.06.2022 - 10:00

Höfundar

„Ég er ekki Beckett-skáld,“ segir rithöfundurinn Brynja Hjálmsdóttir sem gaf nýverið út leikritið Ókyrrð á bók. Hún segist ekki vilja hafa of mikla stjórn á hvernig verk hennar yrði sett upp eða hvernig leikarar haga sér á sviðinu.

Skáldkonan Brynja Hjálmsdóttir gaf nýverið út leikritið Ókyrrð á bók hjá Unu útgáfuhúsi. Þetta er gamanleikur í þremur hlutum og fjallar um dularfulla flugferð, háska í háloftunum. Í verkinu geisar heimsfaraldur, þó ekki covid heldur fuglaflensa, og um borð eru einungis tveir farþegar, flugstjóri og flugfreyja. Brynja ræðir um leikritsformið og hvernig það er frábrugðið ljóðlistinni. 

Um borð í flugvél. Það er hugguleg stemning, lampar og pottaplöntur 

Svona hefst lýsingin á sviðsmynd þessa ærslafulla leikverks sem fjallar um þrána eftir jafnvægi í óstöðugleikanum, stjórn á eigin tilveru og það að fljúga úr hreiðrinu. 

„Ég var ekkert á leiðinni að draga þetta upp“ 

„Ég skrifaði þetta í raun og veru áður en ég skrifaði fyrstu bókina sem kom út, Okfrumuna,“ segir Brynja í samtali við Jóhannes Ólafsson í Víðsjá á Rás 1. Leikritið skrifaði hún sem lokaverkefni í ritlist á árunum 2017 og 2018. „Svo skömmu eftir að ég kláraði það gerði ég einhverjar þreifingar að fara lengra með það sem skilaði engum árangri,“ segir Brynja. Hún einbeitti sér að öðrum verkefnum og þegar hún ákvað að reyna aftur við leikritið skall á heimsfaraldur og öll leikhúsin lokuðu. „Þá hugsaði ég bara: Nei nei, ég held bara áfram,“ segir hún. „Ég var ekkert á leiðinni að fara að draga þetta upp, þannig lagað.“ 

Brynja er betur þekkt sem ljóðskáld en hún hefur alltaf verið hrifin af leikhúsi. „Og í náminu mínu fór ég í leikritunarkúrs sem mér fannst ganga mjög vel og fór þá að lesa rosalega mikið,“ segir hún og þakkar Hlín Agnarsdóttur, sem kenndi kúrsinn, fyrir að kynda undir ákveðnu leikhúsbáli hjá sér. „Mér fannst þetta strax mjög spennandi, að skrifa leiktexta. Og svo finnst mér samtöl svo heillandi form, eða miðill.“ 

Mynd með færslu

Hætti að vera súrrealísk pæling og varð að raunveruleika 

Verkið heitir Ókyrrð og gerist um borð í flugvél á tímum þar sem faraldur geisar, „en það er alls ekki aðalatriðið í verkinu,“ segir Brynja. „Það er eitthvað sem ég setti inn sem afsökun fyrir því að það væru fáir farþegar í vélinni,“ bætir hún við og hlær.  

„Ég ætlaði aldrei að skrifa verk fyrir margar persónur en mér var mjög annt um að það gerðist í flugvél þannig að mig vantaði kannski eitthvað cop-out, einhverja afsökun fyrir því,“ segir Brynja. Henni þótti það skemmtilega súrrealískt sögusvið fyrir leikrit. „En svo hætti það að vera súrrealískt og varð bara mjög raunsætt, sem er ótrúlegt.“ 

Vildi skrifa um að standa á krossgötum 

Verkið fjallar um þessar fjórar persónur og þær stefnur sem eru á lofti og í lífinu, enda kemur hvergi skýrt fram hvert förinni er heitið. „Ég var lengi að finna kjarnann í verkinu, hann var lengi að koma,“ segir Brynja en hún vildi kljást við þá tilfinningu að standa á krossgötum og þurfa að velja sér ákveðna stefnu í lífinu. „Það tengist því kannski hvar ég er þegar ég skrifa verkið. Ég er að klára nám og veit ekki hvað er fram undan,“ segir Brynja.  

Aðalpersónurnar eru Svanhildur, flugstjórinn, Svanhvít, flugfreyja og dóttir Svanhildar, Gaukur sem er titlaður spámaður og Kría sem er ráðgjafi. Svanhvít er í raun miðpunktur verksins sem hefur sína drauma á meðan hin þrjú vilja reyna að hafa áhrif á hennar ákvarðanir. Þessi þrjú hafa hins vegar öll ólíkar lífsskoðanir. „Mig langaði að fjalla um að það er svo oft hamrað á því að einhverjar ákveðnar leiðir séu bestar,“ segir Brynja. 

Ljóðræn upplifun að sitja í flugvél 

„Mér finnst það alltaf vera mjög mögnuð upplifun,“ segir Brynja um það að sitja í flugvél og kallar það ljóðræna upplifun. „Það er svo ótrúlega óvenjulegt að vera í flugvél, og kannski bara á flugvelli líka,“ segir hún. „Ef maður setur þetta í tilvistarlegar pælingar þá er stór opinberun sem ég verð alltaf fyrir þegar ég er í flugvél, hvað það er mikið af fólki í heiminum. Hér er allt þetta fólk og hér er ég líka.“  

„Það varð mjög snemma eitthvað sem mig langaði til að skrifa um,“ segir Brynja. „Ég vissi svo sem ekkert að það væri endilega þetta sem yrði lendingin en það er allavega mikið af efnivið í flugseremóníunni.“ 

„Þessi texti er ekki fastur í þessari bók“ 

„Ég er að fara mikið í fortíðina að gefa út svona bók,“ segir Brynja því það að lesa leikrit á prenti er kannski ekki ýkja algengur siður nú á dögum. „Svona var þetta einu sinni gert, leikskáld gáfu út sín stykki og vonuðu að einhver myndi taka þau og færa á fjalirnar,“ segir Brynja. Sjálf les hún mikið af leikritum en er þó alltaf meðvituð um að handrit eru aldrei lokaútgáfan af neinu. „Og þessi bók er í eðli sínu verk í vinnslu - og þessi texti er ekkert fastur í þessari bók.“ 

„Ég les mikið af leiktextum og hef mikla unun af því,“ segir Brynja og mælir innilega með að fólk lesi leikrit. Sjálfri þykir henni leikritsformið og ljóðformið ekki svo fjarlægt hvort öðru. „Það er knappt og allt þarf að vera hlaðið og merkingarþrungið.“ Helsti munurinn gæti falist í að leikrit krefst mikillar tæknivinnu til að viðhalda spennu og athygli, ólíkt ljóðinu. 

„Ég er ekki Beckett-skáld“ 

Í handritum má gjarnan finna mikið af leiklýsingum og sviðsetningu og hjá Brynju er jafnvel tekið fram að ákveðnar senur séu opnar fyrir spuna. „Það verður alltaf að vera rými til þess,“ segir Brynja. „Ég er ekki Beckett ljóðskáld. Mér finnst ég ekki vita best um hvernig eigi að framkvæma sviðsmynd eða nákvæmlega hvernig leikarar hegða sér.“ Hún reynir að hafa leiklýsingar sínar hagnýtar og vill ekki hafa neitt rosalega mikla stjórn á öllum hlutum. „Og svo bara, ef einhver telur sig vita betur þá er það bara í fínu lagi.“ 

„Mér fannst Sigurður Pálsson orða það rosalega vel, að leikskáldið væri skáld plús verkfræðingur,“ segir Brynja um ferlið við að skrifa leikrit. „Það er þetta að þú verður að hafa algjört hömluleysi skáldsins sem felst kannski í frjálsum skrifum, að gefa einhverju lausan tauminn. En svo verðurðu alltaf að draga til baka.“ Leikritsformið krefjist gríðarlegra endurskrifa og það þurfi alltaf að skoða það betur og klippa út. „Leikritsformið þarf oft mikla verkfræðivinnu í bland við eitthvað hömluleysi.“ 

Rætt var við Brynju Hjálmsdóttur í Víðsjá á Rás 1. Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Brynja Hjálmsdóttir fékk Ljóðstaf Jóns úr Vör 2022

Menningarefni

„Mér hefur verið sagt að þetta sé partíbók“

Bókmenntir

„Það var ekki meiningin að sýna neina miskunn“