Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flaug lágt yfir vatninu áður en hún hafnaði í því

18.06.2022 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: RNSA
Flugvél sem fórst í Þingvallavatni 3. febrúar síðastliðinn virðist hafa verið flogið lágt yfir vatninu í um 7 sekúndur áður en hún hafnaði í því, með þeim afleiðingum að fjórir létu lífið.

Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem gefin var út í dag. Engin merki bárust frá neyðarsendi flugvélarinnar, TF-ABB, við flugslysið. Neyðarlínunni barst nokkurra sekúndna símtal rétt eftir að flugvélin hafnaði í vatninu frá einum farþega vélarinnar. Mikil leit hófst að flugvélinni og fannst hún tveimur dögum síðar, 5. febrúar í Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni. Lík mannanna fjögurra fundust degi seinna. Flugvélin var hífð upp úr vatninu 22. apríl. 

Í bráðabirgðaskýrslunni kemur fram að hljóð á myndskeiðum sem tekin voru um borð í flugvélinni, um það leyti þegar hún var að koma inn í Ölfusvatnsvík, gefi til kynna að afl hafi verið á hreyfli flugvélarinnar. Á einu myndskeiði heyrist þegar afl á hreyflinum minnkar og flugvélin lækkar í kjölfarið flugið niður að vatnsyfirborðinu. 

Einnig má sjá á myndskeiðunum að ís hafi verið að myndast í Ölfusvatnsvík. Ísinn virðist hafa verið mjög þunnur og með stórar vakir á milli. 

Farþegar í aftursætum flugvélarinnar voru líklega ekki í sætisbeltum þegar slysið átti sér stað. Flugmaður og farþegi í framsæti notuðu ekki axlarólar sætisbelta. Strekking mittisólar sætisbeltis í hægra framsæti gaf til kynna að það hafi ekki verið notað. Pakkningar utan um björgunarvesti voru ópnaðar. 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa mun halda áfram rannsókn áfram sem mun meðal annars fela í sér að greina af hverju engin merki bárust frá neyðarsendinum. 

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér. 
 

Fréttin hefur verið uppfærð.