Úkraína færist einu skrefi nær Evrópusambandinu

17.06.2022 - 12:56
epa10017852 European Commission President Ursula von der Leyen gives a press conference on the Commission's opinions on the EU membership applications by Ukraine, Moldova and Georgia in Brussels, Belgium, 17 June 2022.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Úkraína hefur færst einu skrefi nær Evrópusambandinu. Framkvæmdastjórn ESB hefur ákveðið að leggja til að Úkraína fá formlega stöðu umsóknarríkis.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ákveðið að mæla með því að Úkraína fái formlega stöðu umsóknarríkis. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tilkynnti þetta í morgun. Með þessu færist Úkraínu einu skrefi nær aðild að sambandinu. „Það er mat framkvæmdastjórnarinnar að Úkraína hafi sýnt skýran vilja til þess að hafa í hávegum gildi og staðla Evrópu. Úkraína hóf þess vegferð fyrir stríð og síðustu átta ár hefur ríkið færst hægt og rólega í átt að sambandinu okkar,“ sagði von der Leyen íklædd fánalitum Úkraínu á fundi með fréttamönnum í morgun. 

Þetta þykir stórt skref í ferlinu en þýðir þó ekki að það sé alveg öruggt að Úkraína fái aðild að ESB. Nú þegar hafa fimm ríki formlega stöðu umsóknarríkis; Albanía, Norður-Makedónía, Svartfjallaland, Serbía og Tyrkland. Og í  morgun fékk Moldóva sama stuðning frá framkvæmdastjórninni og Úkraína. Leiðtogar allra 27 aðildarríkja þarf að samþykkja tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Í næstu viku fer fram leiðtogafundur ESB í Brussel. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, fagnar ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Hann skrifar á Twitter að þetta sé fyrsta skrefið í átt að aðild að ESB og kveðst þakklátur von der Leyen og framkvæmdastjórninni stuðninginn. 

Ef Úkraína og Moldóva fá sama stuðning hjá leiðtogum aðildarríkja tekur við langt og strangt ferli sem gæti tekið mörg ár. Til dæmis þarf öll löggjöf að samræmast lögum og reglum ESB. Og stjórnvöld í Úkraínu þurfa að taka á spillingu í stjórnkerfinu og gera breytingar á dómskerfinu til þess að bæta stöðu réttarríkisins.