Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Menn áttu í fullu fangi við að finna leiðina heim“

Mynd: Landsbjörg/Björgunarfélag Hor / RÚV
Afar blint og þungfært var þegar björgunarsveitarfólk kom fjórtán manna hópi til bjargar á Öræfajökli í nótt. „Nánast alla leiðina þá vorum með kannski tíu fimmtán metra skyggni. Þannig að ef næsti bíll fór of langt þá eiginlega týndist hann. Það var rosalega blautur snjór og svo á leiðinni til baka var búið að snjóa rosalega mikið í för og menn áttu í fullu fangi við að finna leiðina heim,“ segir Sigfinnur Mar Þrúðmarsson, hjá Björgunarfélagi Hornafjarðar.

Tólf ferðamenn frá Póllandi, ásamt tveimur íslenskum leiðsögumönnum, lögðu af stað í göngu á Hvannadalshnjúk klukkan þrjú aðfaranótt fimmtudags. Hópurinn var á niðurleið síðdegis í gær þegar gps-búnaður þeirra bilaði. Skyggni var mjög slæmt og því hélt hópurinn kyrru fyrir upp við öskjuna í Öræfajökli og kallaði eftir aðstoð björgunarsveita klukkan fjögur. Velútbúið björgunarsveitarfólk á fjórum vélsleðum lagði af stað og fann hópinn klukkan ellefu í gærkvöld. 

Biðu í 1800 m hæð í tjöldum

„Það var ákveðið að þeir myndu halda kyrru fyrir og gefa fólkinu eitthvað að japla og drekka og bíða eftir fleiri sleðum. Þeir voru bara á jöklinum uppi í öskjunni í 1800 metra hæð og voru það í tveimur tjöldum,“ segir Jens Olsen, varaformaður Björgunarfélags Hornafjarðar.

Hvernig var veðrið þarna uppi þá?

„Það var svona tólf sextán metrar í vind og skafrenningur á köflum. Skyggnið var ekki neitt og rosa erfitt að gera grein fyrir ójöfnu og öðru á jöklinum,“ segir Jens.

Klukkan fimm í morgun var fleira fólk á vélsleðum komið á staðinn. Þá voru  björgunarsveitarjeppar komnir nógu nálægt til þess að unnt væri að ferja fólkið yfir í bílana. Sigfinnur var í einum af jeppunum. 

Blautur snjór og lítið skyggni

„Við vorum um átta tíma að koma okkur að Hermannaskarði þar sem við hittum hópinn og við vorum um sex tíma að koma okkur heim. Það var það þungt færi að við vorum um tveimur tímum lengur að koma okkur á jökul. Nánast alla leiðina þá vorum með kannski tíu fimmtán metra skyggni. Þannig að ef næsti bíll fór of langt þá eiginlega týndist hann. Það var rosalega blautur snjór og svo á leiðinni til baka var búið að snjóa rosalega mikið í för og menn áttu í fullu fangi við að finna leiðina heim. Hópurinn var náttúrulega orðinn alveg skítkaldur og hrakinn. Þannig að það var bara að skutla öllum inn í bíl og allar miðstöðvar settar í botn,“ segir Sigfinnur.

Ástandið að verða alvarlegt

„Það var að fara að verða krítískt ástand þarna uppi,“ segir Jens.

Var fólkið orðið skelkað?

„Já, ég held það. Það var náttúrulega búið að dúsa þarna í sólarhring áður en það var farið að flytja það til baka. Það lagði af stað klukkan þrjú nóttina áður í gönguna,“ segir Jens.

Í hádeginu kom svo fyrsti hluti hópsins til Hafnar í Hornafirði þar sem fjöldahjálparstöð hafði verið sett upp. Síðustu í hópnum komu þangað klukkan þrjú í dag. Björgunarsveitir allt frá Mosfellsbæ austur á Vopnafjörð tóku þátt í aðgerðunum, alls 140 manns.

Alveg glórulaust

Hvað finnst þér um að fólk sé að fara á Hvannadalshnjúk í ekki alltof góðu veðri?

„Það er náttúrulega fyrirtækisins að svara en miðað við aðstæður sem við vorum í þá er það náttúrulega alveg glórulaust,“ segir Sigfinnur.

Vanmeta aðstæður og ofmeta sjálfa sig

Árni Tryggvason hefur verið björgunarsveitarmaður í 42 ár og fjallaleiðsögumaður. 

„Stærsta hætta fjallamanna er að ofmeta sjálfa sig og vanmeta aðstæður. Þegar þetta tvennt fer saman getum við lent í slæmum málum,“ segir Árni.

„Þarna hefði hugsanlega mátt haga málum öðru vísi. Bilaði eitt gps-tæki? Var ekki annað á svæðinu? Flestir eru með síma í dag þar sem við getum staðsett okkur nánast upp á millimetra með því að fara inn á Maps og fleiri öpp. Þannig að við sjáum alltaf hvar við erum. Var áttaviti með? Áttaviti tæmist ekki af batteríi þannig að við löbbum alla vega ekki í hringi,“ segir Árni.

„Það eru of margir að gefa sig í það að fara með hópa. Það eru til ferðahópar þar sem leiðtogar hópanna hafa ekki nógu sterkan bakgrunn til þess að takast á við aðstæður. Það hafa orðið hörmuleg slys út af slíku,“ segir Árni.