Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Göturnar eru leiksviðið okkar

Mynd: UngRÚV / UngRÚV

Göturnar eru leiksviðið okkar

17.06.2022 - 10:00

Höfundar

Götuleikhúsið hefur verið til frá árinu 1994 og hafa margir af okkar helstu leikurum stigið sín fyrstu skref þar.

Yfir sumartímann býðst ungu fólki á aldrinum 17 til 25 ára að sækja um starf hjá Götuleikhúsinu. Leikarar Götuleikhússins fá ýmiss konar þjálfun sem nýtist þeim bæði í vinnu sinni við Götuleikhúsið og ef þau halda áfram í listinni. Leikarar Götuleikhússins starfa náið með leikstjóra og búningahönnuði í undirbúningsvinnunni og setja þannig svip sinn á verkin. 

Þema Götuleikhússins í ár er gleði. Einn af gjörningunum er rauður kassi þar sem gestir og gangandi geta opnað, kíkt ofan í og séð fallegustu manneskju í heimi. „Tilgangurinn er í rauninni bara sá að gleðja fólk og koma smá hlýju í hjartað hjá ókunnungu fólki sem við þekkjum ekki neitt,“ segir Hrefna Hlynsdóttir leikari Götuleikhússins.

„Hitt húsið var stofnað árið 1991 og þá fljótlega í kjölfarið kom ungt fólk og sagði getum við ekki fengið sumarvinnu við að setja upp Clockwork orange,“ segir Ása Hauksdóttir deildarstjóri hjá Hinu húsinu og er það upphafið af götuleikhúsinu. Ása segir einnig að mikilvægt sé að rækta garðinn í upphafi þegar kemur að því að búa til gott menningarlíf. 

Aldís Davíðsdóttir sér um leikmynd og búninga í götuleikhúsinu í sumar. Aldís var tilnefnd til Grímuverðlaunanna fyrir búninga í sýningunni „Hetja“ sem sýnd var í Tjarnarbíói í vetur. Árni Beinteinn leikari og dagskrágerðarmaður sér um leikstjórn Götuleikhússins. Árni sló rækilega í gegn í hlutverki Benedikts Búálfs og sem Haraldur í verkinu „Skugga-Sveinn“ í uppfærslu Leikfélags Akureyrar. 

Götuleikhúsið ætlar sér að vera fyrirferðarmikið í sumar. Þau sem ætla að leggja leið sína niður í bæ á í dag munu pottþétt verða vör við þau. 

Þrátt fyrir að Götuleikhúsið ætli sér að koma á óvart í sumar með gleði og gjörningum verður hægt að fylgjast með þeim á samfélagsmiðlum Götuleikhússins.