
23 seglbátar á leið til Fáskrúðsfjarðar vegna óveðurs
Keppendurnir ætluðu sér að sigla hraðskreiðum seglbátum frá Frakklandi, umhverfis Ísland og svo aftur suður á bóginn án þess að koma að landi, en vegna veðurs var keppendunum ráðlagt að leita vars í Fáskrúðsfirði.
Þrír keppendur eru þegar komnir til hafnar í Fáskrúðsfirði, en von er á fleirum í land í nótt og fram eftir morgni. Ingvar Björnsson, formaður Siglingaklúbbs Austurlands, stendur vaktina á Austfjörðum í nótt og undirbýr komu siglingafólksins.
Þriðjungur bátanna laskaður eftir veðrið
„Siglingaklúbbur Austurlands fékk það hlutverk að vera neyðarstöð til að taka við biluðum bát, ef það hefði komið upp á teninginn. Svo þegar keppnin hefst að þá byrjar að koma þessi djúpa lægð út á Atlantshafið og heldur áfram í raun að byggjast upp sem lauk náttúrulega með þessu. Það er þriðjungur af flotanum orðinn eitthvað skemmdur eða laskaður, er enn á leið í land og mun vera að koma inn í nótt og á morgun,“ sagði Ingvar.
Hægt er að fylgjast með ferð bátanna í rauntíma á vef keppninnar.