Svarta keilan er á „réttum stað“

16.06.2022 - 19:30
Mynd: Fréttir / Fréttir
Svarta keilan, listaverk um borgaralega óhlýðni, sem stendur fyrir framan Alþingi, heldur áfram að valda pirringi hjá þingmanni sem í þrígang hefur lagt til að það verði fjarlægt. Safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, sem á verkið, segir að umræðan hjálpi verkinu að ná markmiðum sínum. 

Fer í taugarnar á mörgum stjórnmálamönnum

Svarta keilan, eftir spænska listamanninn Santiago Sierra var sett upp við Alþingi árið 2012. Verkið á að minna á mikilvægi borgaralegra réttinda og þann rétt þegnanna að neita að hlýðnast óréttlátum lögum og kröfum yfirvalda - og hefur farið í taugarnar á mörgum stjórnmálamanninum - þar á meðal Bergþóri Ólasyni úr Miðflokknum. 

„Ég hvet forseta Alþingis til að hlutast til um það að grjóthnullungurinn sem er hér fyrir utan Alþingishúsið verði fjarlægður,“ sagði Bergþór fyrir tveimur dögum - þetta var þriðja ræðan sem hann heldur um málið - og hefur vakið viðbrögð að hans sögn. 

„Þau eru miklu meiri núna en í fyrri tvö skiptin, en það afstaða mín er óbreytt hvað það varðar að mér finnst það ekki við hæfi að það sé verk sem þetta beint fyrir framan aðalinngang Alþingis, í óþökk þingsins,“ segir Bergþór. 

Farið fram á að verkið yrði fært

Listaverkið var fyrst sett upp á Austurvelli, fyrir framan hátíðarinngang Alþingis. Þá vakti það talsverða andstöðu; forseti Alþingis sendi borgaryfirvöldum bréf og fór fram á að það væri fært - það var svo gert og núna er það fyrir framan aðalinngang þingsins. Það er talsverð andstaða við þetta verk og Bergþór er ekki sá eini sem pirrar sig á því. 

Byrjum á viðbrögðum Alþingis; vorið og haustið 2012 skrifaði þáverandi forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þrívegis bréf til borgaryfirvalda og fór fram á að verkið yrði fjarlægt - „Forsætisnefnd harmar að borgarstjórn hafi hunsað algjörlega eindreginn vilja Alþingis", sagði í síðasta bréfi þingforseta.

Verkinu valinn góður staður

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi forseti þingsins bætti um betur í Morgunblaðinu fyrir fjórum árum og sagði meðal annars að steinninn hefði verið settur þarna til háðungar Alþingi Íslendinga. Bergþór segist ekki vera á móti borgaralegri óhlýðni - en að listaverkið eigi alls ekki heima þarna. En það er á nákvæmlega réttum stað, segir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir. 

„Ég verð nú bara að segja að þingmaðurinn er að hjálpa verkinu að ná markmiðum sínum, því eitt af markmiðum verksins er að minna á borgaralega óhlýðni, það er að segja að minna fólk á það að þegar þau telja að yfirvöld séu að brjóta á sér, þá hafi þau rödd, og geti komið saman, og það er ákveðin hefð fyrir því að Íslendingar komi saman á Austurvelli, þannig að ég held að verkinu hafi verið valinn góður staður á sínum tíma.“

Þingforsetar undanfarinna ára hafa ekki þrýst á borgaryfirvöld um að flytja verkið - og ekki heldur núverandi þingforseti, Birgir Ármannsson - sem sagði þó við fréttastofu í dag að hann útilokaði ekki að fara yfir þau bréfaskipti sem orðið hafa - en engin ákvörðun hefði þó verið tekin um það. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV