Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óttast verulega aukningu smita um helgina

16.06.2022 - 16:49
Mynd: RÚV / RÚV
Landspítali hefur tekið upp grímuskyldu á ný og hert reglur um heimsóknir aðstandenda. Það er viðbragð við mikilli fjölgun Covid-19 smita á spítalanum síðustu daga. Már Kristjánsson er yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala. 

Þung staða á spítalanum

„Staðan er bara fremur þung myndi ég nú segja. Bara í þessum töluðu orðum þá erum við með um þrjátíu manns á spítalanum þar af eru 28 í einangrun. Það hefur bæst mjög hressilega í síðastliðinn sólarhring eða 16 ný tilfelli.” Segir Már. 

Hann segir þessa skyndilegu aukningu covid-smita á spítalanum megi jafnt rekja til hópsmita á nokkrum starfsstöðvum spítalans og fjölgunar smita í samfélaginu. Hann segist ekki telja að veiran valdi alvarlegri veikindum nú en við höfum kynnst undanfarnar vikur. Smitum sé einfaldlega að fjölga með þessum afleiðingum. 

„Bara af því að samfélagið er orðið opnara og meira um mannfagnaði og minna um grímur og sprittnotkun úti í samfélaginu til handþvotta. Þá skýrir það stöðuna. Síðan eru náttúrulega aðrar lífbreytur það er gríðarlegur fjöldi ferðamanna bæði fljúgandi og með skemmtiferðaskipum. Síðan eru útskriftir úr skólum og svona félagslegir þættir sem gerast á vorin. Þá er þetta bara staðan. Það verður meiri útbreiðsla og nær þess vegna til fleiri þjóðfélagshópa. Þar á meðal þeirra sem standa höllum fæti heilsufarslega.” 

Spurningum ósvarað um hjarðónæmi

Nú er bólusetningarhlutfall þjóðarinnar nokkuð hátt. Flestir virðast vera komnir með fullnægjandi bólusetningu. Nær það ekki að halda þessu hjarðónæmi sem við vonuðumst til að ná? 

„Jú, það er svona ýmsum spurningum ósvarað í þessum efnum. Það er alveg rétt að bólusetningarhlutfallið er mjög hátt. Það er búið að ganga hérna ómíkron BA1 og -2 afbrigðið mjög hressilega yfir samfélagið. Partur af því sem hefur verið óljóst snýst um varanleika ónæmissvarsins. Það er engin spurning að bólusetningin og þessi glæsta ónæmisstaða í samfélaginu dregur mjög úr fjölda þeirra sem verða alvarlega veikir. Það er engum blöðum um það að fletta. Það eru hins vegar inni á milli einstaklingar sem eru óbólusettir. Þeir fara alla jafna ver út úr þessu. Það eru líka einstaklingar sem standa höllum fæti heilsufarslega vegna krabbameinsmeðferðar eða meðferðar með ónæmisbælandi lyfjum sem hafa bara minni getu til að bregðast við veirusýkingunni. “ Segir Már og ítrekar mikilvægi bólusetninga.

„Bólusetningar eru það sem hefur hjálpað okkur mest og það er sjálfsagt að brýna það fyrir fólki að láta bólusetja sig. Hafi fólk ekki látið bólusetja sig hingað til að þá er tækifæri til að gera það. Ef að fólk er tvíbólusett að láta fólk gera það í þriðja og jafnvel fjórða skiptið.” 

Það er hægt að gera á heilsugæslustöðvum víðs vegar um land. Már segist ekki geta spáð fyrir um framhaldið, en er áhyggjufullur. Ekki síst vegna hátíðarhalda morgundagsins. 

Óttast hátíðarhöld og samkomur helgarinnar

„Ef að maður bara notar hyggjuvitið sitt, gögnin og bara þær þjóðfélagsbreytur sem við eru búin að tíunda hérna. Það er gríðarlega mikið smit úti í samfélaginu. Greinilega. Það les maður af því að það er alveg upp undir 45% af þeim sem fara í próf reynast vera jákvæð. Það er endurspeglun á mikið samfélagssmit. Á morgun er 17. júní og þá hefur það verið vaninn að fólk kemur mikið saman. Skemmtir sér. Þetta er löng helgi. Þannig að það er alveg innan marka þess mögulega að það verði verulega mikil aukning og mikil útbreiðsla smits þegar að svona stendur á. Hvort að það síðan leiði til svo mikillar fjölgunar í veikindum að það þenji heilbrigðiskerfið til hins ýtrasta um það get ég ekki fullyrt á þessari stundu. Það verður tíminn svolítið að leiða í ljós bara.” Segir Már.  

Viltu beina einhverjum leiðbeiningum til fólks til að reyna að koma í veg fyrir það? 

„Já, þetta er náttúrulega orðin svo margtuggin tugga. Við vitum alveg nákvæmlega hvernig þetta smitast. Það að nota grímu í almannarýmum. Sérstaklega lokuðum almannarými á borð við verslanir og jafnvel skemmtistaði og þess háttar er náttúrulega skynsamlegat. Síðan er það þetta svona knús og kjass það er líka vís leið til að smita. Ef að fólk treystir sér til að beita þessum úrræðum og ég tala nú ekki um í námunda við þá sem standa höllum fæti veikindalega að þá er það bara gríðarlega mikilvægt að gera það.” Segir Már.