54 þingmenn greiddu frumvarpinu atkvæði sitt en tveir sátu hjá. Nýju lögin fela í sér að hlutfall endurgreiðslu verður 35% af framleiðslukostnaði sem fellur til við kvikmyndagerð hérlendis.
Málið er hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og liður í kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem menningarmálaráðherra kynnti árið 2020.
Ráðherra sagði við atkvæðagreiðsluna að um væri að ræða risastóra aðgerð í þeirri vegferð ríkisstjórnarinnar að fjölga störfum í hinum skapandi greinum.
„Virðulegi forseti ég vil byrja á því að þakka þinginu kærlega fyrir góð vinnubrögð í afgreiðslu þessa frumvarps. Þetta frumvarp þýðir það að kvikmyndagerð á Íslandi er orðin samkeppnishæf aftur þegar við erum að bera okkur saman við önnur ríki og ríkisstjórnin stefnir að því að fjölga störfum í hinum skapandi greinum og er þetta risastór aðgerð í þeirri vegferð,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir við atkvæðagreiðsluna seint í kvöld.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að markmið frumvarpsins sé að styðja enn frekar við kvikmyndagerð hér á landi og stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi. Verkefnin þurfa að vera að lágmarki 350 milljóna króna að stærð, starfsdagar þurfa að vera að lágmarki 30 og fjöldi starfsfólks sem vinnur að verkefninu þarf að vera að lágmarki 50.