Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Augljóslega engin stemning fyrir takmörkunum“

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Covid-smitum hefur fjölgað mjög síðustu daga og hátt í þrjátíu eru nú á Landspítala vegna covid-smits, tveir þeirra á gjörgæslu og einn í öndunarvél. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir þetta verulegt stökk upp á við og mikilvægt að huga að smitvörnum. Líklega verði þó ekki gripið til takmarkana strax.

„Þetta eru sömu afbrigðin og hafa verið að greinast. Þetta er yfirleitt fólk sem hefur ekki fengið covid áður.  Við vitum að endursmit eru tiltölulega fátið. Það eru undir 10 prósent, kannski 5 prósent sem er að smitast aftur. Þannig við erum ekki að sjá endursmit hjá þeim sem hafa sýkst áður.“

Sífellt fleiri eru á spítala með covid og sjúklingarnir töluvert veikir. 

„Það eru þrjátíu manns inniliggjandi á spítalanum núna og tveir á gjörgæslu þannig þetta er verulegt stökk upp á við.“

Fjórða sprautan skiptir sköpum

Flestir sem liggja á spítala eru 70 ára og eldri, en að sögn Þórólfs eru þau sem hafa fengið fjórar sprautur með mun vægari einkenni en þau sem eru minna bólusett. Hann hvetur fólk í áhættuhópum til að þiggja fjórðu sprautuna.  

„Það sem við getum gert núna er að hvetja fólk til að sýna aðgæslu í sóttvörnum og smitvörnum. Sérstaklega þau sem eru veik fyrir og með undirliggjandi sjúkdóma. Ég hugsa til dæmis að sumar heilbrigðisstofnanir muni taka upp grímuskyldu aftur inn á sínum stofnunum.“

Þarf að fylgjast með þróun faraldursins

Þórólfur telur að ekki verði gripið til takmarkana strax. Það ráðist af því hvernig faraldurinn þróist.

„Það er alveg ljóst að það er engin stemning fyrir neinum takmörkunum í þjóðfélaginu eða hvar sem er. Það eru stjórnvöld sem taka endanlega ákvörðun um slíkt,“ segir Þórólfur að lokum.