Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Serena Williams snýr aftur

epa09000012 Serena Williams of the United States of America in action against Nina Stojanovic of Serbia during their second round match of the Australian Open Grand Slam tennis tournament in Melbourne, Australia, 10 February 2021.  EPA-EFE/DAVE HUNT  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA

Serena Williams snýr aftur

15.06.2022 - 10:19
Næst sigursælasta tenniskona sögunnar, Serena Willams, snýr aftur á völlinn í mánuðinum og tekur þátt á Wimbeldon meistaramótinu. Willams þurfti aukasæti til að vera með en hún situr nú í 1208. sæti heimslistans. Þá var tilkynnt í gær að Opna bandaríska meistaramótið verði opið Rússum og Hvítrússum ólíkt Wimbeldon mótinu.

Serena Williams, sigursælasti tennisleikari síðari ára, verður meðal keppenda á Wimbeldon risamótinu sem hefst síðar í mánuðinum. Willams, sem unnið hefur næst flest risamót kvenna, alls 23 talsins, hefur ekki keppt síðan hún meiddist í fyrstu umferð Wimbeldon mótsins í fyrra. Héldu einhverjir að ferli Williams væri jafnvel lokið þegar meiðslin urðu þess valdandi að hún missti af hverju mótinu á fætur öðru og hún hrundi niður heimslistann. Hún er nú í 1208. sæti listans en fékk aukasæti á Wimbeldon sem hún hefur unnið sex sinnum, nú síðast árið 2016.

Þessi fjörutíu ára Bandaríkjamaður þarf að vinna einn risatitil til viðbótar til að jafna við met hinnar áströlsku Margaret Court yfir fjölda risatitla en keppt er um fjóra slíka á ári hverju. Williams komst mjög nálægt því árin 2018 og 2019 en tapaði tveimur úrslitaleikjum á risamóti hvort árið. Hún hefur því ekki unnið risamót síðan 2017 þegar hún vann systur sína, Venus Williams, í úrslitaleik Opna ástralska meistaramótsins. Raunar sóttist hin 41 árs gamla Venus einnig eftir aukasæti á Wimbeldon í ár en hefur ekki hlotið náð fyrir stjórnendum mótsins. Enn eru þó tvö sæti í boði á mótinu og gæti Venus fengið annað þeirra.

Rússarnir með á US Open

Af öðrum fréttum í tennisheiminum er frá því að segja að stjórnendur Opna bandaríska meistaramótsins munu ekki meina rússneskum og hvítrússneskum keppendum þáttöku á mótinu sem fram fer í haust. Það þýðir að Daniil Medvedev, stigahæsti tenniskarl heims, getur varið titil sinn. Hann og landi hans Andrey Rublev, sem er í áttunda sæti heimslistans, fá hins vegar ekki að keppa á Wimbeldon vegna innrásar Rússa í Úkraínu.