Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Meðalsölutími íbúða aldrei mælst jafn stuttur

15.06.2022 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið jafn stuttur frá upphafi mælinga. Meðalkaupverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu í apríl er tæpum 20 milljónum hærra en á sama tíma fyrir ári, nú í apríl var það 76,9 milljónir króna en á sama tíma fyrir ári var það 60,6 milljónir króna.

Þótt meðalsölutími íbúða sé nú aðeins tæpir 35 dagar virðist fasteignamarkaðurinn aðeins vera farinn að róast miðað við fjölda kaupsamninga í apríl. 

Þeir höfðu ekki verið jafn fáir síðan sumarið 2014, og á sama tíma hefur framboð á íbúðum til sölu aukist. Alls voru 699 kaupsamningar gerðir um íbúðarhúsnæði í apríl, sem gera 752 þegar leiðrétt er fyrir reglubundnum árstíðasveiflum.

Samhliða virðist þó vera mikil eftirspurn og hafa íbúðir sem seljast yfir ásettu verði aldrei verið fleiri. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Kári S. Friðriksson, hagfræðingur á hagdeildinni, segir met hafa verið slegið í apríl, annan mánuðinn í röð, þegar 54 prósent íbúða á landinu seldust yfir ásettu verði.

„Fólk virðist vera að berjast um að fá íbúðir, það virðast margir vera í kauphugleiðingum,“ segir Kári.

„Það útskýrir bæði þennan stutta sölutíma og fjölda íbúða sem fara yfir ásettu verði. Fólk virðist vera að beitast um hverja íbúð.“

Leiguverð sem hlutfall af launum aldrei mælst lægra

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur farið lækkandi á föstu verðlagi frá því í byrjun árs. Nú er leiguverðið orðið lægra en fyrir ári síðan og hefur það ekki mælst lægra að raunvirði síðan í ágústmánuði 2017.

„Aðstæður á leigumarkaði hafa verið nokkuð hagkvæmar undanfarið, eftirspurnin hefur ekki verið alveg jafn mikil og framboðið verið nokkuð mikið,“ segir Kári.

„Það hefur því verið nokkuð þægilegt að vera á leigumarkaði, svona miðað við hvernig var áður.“