Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Hér er opinn faðmur og allir velkomnir“

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - RÚV
Með því að mála regnbogastétt að dyrum Glerárkirkju segir sóknarprestur að kirkjan sé að bjóða alla velkomna og viðurkenna þar með söguna um útilokun og fordóma sem áður ríktu innan Þjóðkirkjunnar.

Sjálfboðaliðar máluðu stéttina

Regnbogastétt hefur verið máluð upp að dyrum Glerárkirkju á Akureyri og mun prýða stéttina í sumar en óvíst hvort henni verði viðhaldið. 

Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju er einn af þeim sem stendur að þessu. Hann segir að það hafi borist beiðni utan úr bæ fyrr í sumar um að mála stéttina í litum regnbogans. „Við vorum aðeins að melta þetta og svo sá ég það að varabæjarfulltrúi á Akureyri málaði svona regnboga að fjölbýlishúsinu þar sem hún býr, ákvað að heyra í henni og sá að þetta yrði líklega ekkert mál þannig að við hóuðum saman nokkrum sjálfboðaliðum og kýldum á þetta.“

Mynd með færslu
 Mynd: Af FB síðu Glerárkirkju - RÚV
Stéttin var máluð af sjálfboðaliðum á öllum aldri

Vel tekið í hugmyndina

Hvernig hefur þetta mælst fyrir?

„Bara nokkuð vel. Ég sem sagt bara þetta undir framkvæmdanefndina, þau þurfa að samþykkja allt sem við gerum hérna í kirkjunni og þeim leist bara afskaplega vel í þetta,“ segir Sindri.

Hann segir ekki margar óánægju raddir hafa heyrst þó þær séu einhverjar. Flestir hafa líst yfir mikilli ánægju enda lífgi stéttin mikið upp á og börn á sumarnámskeiði í kirkjunni leiki sér meira á stéttinni nú.

Liður í að gera upp söguna

Er þetta kannski skref í þá átt að komast nær nútímanum?

„Að vissu leyti. Kannski einn af hvötunum fyrir því að mér fannst gott mál að fara í þetta núna er að núna í ágúst þegar hinsegin dagar standa yfir á að kynna verkefnið, Ein saga, eitt skref, sem er búið að vera í vinnslu í Þjóðkirkjunni og Samtökunum 78 í tvö ár held ég, þar sem er verið að safna sögum hinsegin fólks af slæmu viðmóti eða bara útilokun og fordómum frá Þjóðkirkjunni. Þannig að mér finnst þetta bara hluti af því að við erum að reyna að sýna það að við viðurkennum söguna og bara hvað hefur misfarist og verið gert rangt en við viljum taka aðra stefnu og sýna það að hér er opinn faðmur og allir velkomnir,“ segir Sindri Geir.