Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þurrkar og eldar í suðri en úrhelli og flóð í norðri

14.06.2022 - 04:22
In this photo provided by Sam Glotzbach, the fast-rushing Yellowstone River flooded what appeared to be a small boathouse in Gardiner, Mont., on Monday, June 13, 2022, just north of Yellowstone National Park. (Sam Glotzbach via AP)
RIgningar síðustu daga hafa hleypt miklum vexti í Yellowstone-ána, sem rennur í gegnum samnefndan þjóðgarð í Bandaríkjunum Mynd: AP
Miklir hitar og þurrkar geisa víða í suðvesturríkjum Bandaríkjanna, sem eykur mjög hættu á gróðureldum. Á sama tíma veldur úrhellisrigning miklum flóðum í Yellowstone-þjóðgarðinum í norðvestri og hefur honum verið lokað.

Hitabylgja hefur þjakað íbúa sunnanverðra Bandaríkjanna síðustu daga, allt frá Flórída í austri til Kaliforníu í vestri. Hitamet hafa verið jöfnuð og slegin á yfir 20 stöðum og hitatölur yfir 40 gráðum ekki óalgengar.

Þessum hitum fylgja þurrkar og fjöldi skógar- og gróðurelda hefur blossað upp í Arisóna og sunnanverðri Kaliforníu síðustu daga. Heljarinnar skógareldur sem kviknaði í Nýja Mexíkó í apríl logar líka enn. Hlýir, þurrir og allhvassir vindar skapa víða kjöraðstæður fyrir eldana og torvelda slökkvistörf, eins og fram kemur í frétt The Guardian.

Fordæmalausar stórrigningar skapa stórhættu í Yellowstone

Öllu norðar, í Yellowstone-þjóðgarðinum í Wyoming, Montana og Idaho, hafa hins vegar skapast „gífurlega hættulegar aðstæður“ af völdum fordæmalausra“ stórrigninga og flóða, segir í tilkynningu frá yfirstjórn þjóðgarðsins, sem CNN greinir frá.

Þar segir að öllum inngöngum í garðinn hafi verið lokað tímabundið „vegna mikilla flóða, grjót- og aurskriða á vegum“ af völdum vatnsveðursins. Birt var tilkynning á vefsíðu garðsins á mánudag þar sem fram kom að öll umferð inn í garðinn yrði bönnuð þar til aðstæður batna og starfsfólk þjóðgarðsins getur metið skemmdir á vegum og brúm, sem yrði ekki fyrr en í fyrsta lagi á miðvikudag. Verst er ástandið nyrst í þjóðgarðinum, þar sem fjöldi vega og brúa hefur skemmst og eyðilagst. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV