Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sýning ársins 2022: Níu líf Bubba

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið - Níu líf

Sýning ársins 2022: Níu líf Bubba

14.06.2022 - 22:05

Höfundar

Söngleikur Borgarleikhússins Níu líf er sýning leikársins. Þetta var tilkynnt á stóra sviði Þjóðleikhússins við lok Grímuhátíðarinnar 2022 og í beinni á RÚV. Allt leikhús byrjar með hugmynd, mynd í hugskoti eða tilfinningu sem verður til af hreinni þörf. Til að hugmyndin raungerist, þarf áræði, eftirfylgju, kraft og óbilandi trú. Ekki bara einnar manneskju heldur samfélags innan veggja leikhússins, sagði Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri, þegar hún tók á móti verðlaununum.

Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri og handritshöfundur sýningarinnar þakkaði Bubba fyrir að vera sá sem hann er, að vera stór. Stórt tré í þeim garði sem íslenskt samfélag saga, menning og tími sé. Sýningin Níu líf hafi sprottið af þessu tré, sagði Ólafur Egill.

Allt ætlaði um koll að keyra þegar tilkynnt var um þessi aðalverðlaun hátíðarinnar, enda fjöldi sviðslistafólks sem kom að uppsetningu verksins, sem nú hefur verið sýnt um eitthundrað sinnum, þrátt fyrir samkomutakmarkanir síðustu tveggja ára.

Halldóra Geirharðsdóttir fékk fyrr í kvöld Grímuverðlaun sem leikkona ársins í aðalhlutverki í sýningunni. Halldóra fékk einnig verðlaun sem söngvari ársins fyrir frammistöðu sína í söngleiknum.

Tíu tilnefningar

Ólafur Egill hlaut tilnefningu sem leikstjóri ársins og handrit hans að sýningunni var tilnefnt sem leikrit ársins. Söngleikurinn fjallar um lífshlaup og tónlistarferil Bubba Morthens.

Björn Stefánsson var tilnefndur jafnframt tilnefndur sem leikari ársins í aðalhlutverki, Lee Proud fyrir dans og sviðshreyfingar, Ilmur Stefánsdóttir fyrir leikmynd sýningarinnar og þeir Gunnar Sigurbjörnsson, Þórður Gunnar Þorvaldsson og Guðmundur Óskar Guðmundsson fyrir hljóðmynd í verkinu.

Bubbi okkar allra

Söngleikurinn fjallar um lífshlaup og tónlistarferil Bubba Morthens og í sýningunni er Bubba hvergi hlíft. Fylgst er með stjörnunni sem rís upp úr slorinu, fyrst sem málsvari verkalýðsins sem reynir fyrir sér sem alþýðusöngvari. Þá umbreytist hann í pönkara, síðan rokkara og loks í ballöðupoppara.

Skoðanaglaði gasprarinn, skrifblinda ljóðskáldið, fíkilinn sem reis upp, kvennamaðurinn og sá sem elskar aðeins eina konu, Kúbverjinn og Hollywood-víkingurinn, veiðimaðurinn, friðarsinninn og boxarinn.

Bubbi er samofinn þjóðarsálinni í öllum þessum birtingarmyndum og gerir sýningin lífshlaupi hans, sorgum og sigrum ævintýraleg skil. 

Grímuhafar ársins 2022

Valnefnd Grímunnar hefur útnefnt söngleikinn Níu líf þá sýningu sem skaraði mest framúr á leikárinu 2021 til 2022. Eftirfarandi eru Grímuverðlaunahafar í heild sinni:

Sýning ársins
Níu líf
Borgarleikhúsið

Leikrit ársins
Sjö ævintýri um skömm
eftir Tyrfing Tyrfingsson
Þjóðleikhúsið

Leikstjóri ársins
Stefán Jónsson
Sjö ævintýri um skömm
Þjóðleikhúsið
 
Leikari ársins í aðalhlutverki 
Hilmir Snær Guðnason 
Sjö ævintýri um skömm
Þjóðleikhúsið

Leikari ársins í aukahlutverki  
Vilhjálmur B. Bragason
Skugga Sveinn
Leikfélag Akureyrar

Leikkona ársins í aðalhlutverki 
Halldóra Geirharðsdóttir 
Níu líf
Borgarleikhúsið
 
Leikkona ársins í aukahlutverki 
Margrét Guðmundsdóttir 
Ein komst undan
Borgarleikhúsið
 
Leikmynd ársins
Börkur Jónsson
Sjö ævintýri um skömm
Þjóðleikhúsið

Búningar ársins
Þórunn Elísabet Sveinsdóttir 
Sjö ævintýri um skömm
Þjóðleikhúsið

Lýsing ársins
Halldór Örn Óskarsson
Sjö ævintýri um skömm
Þjóðleikhúsið

Tónlist ársins
Anna Þorvaldsdóttir
AIŌN
Íslenski dansflokkurinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands

Hljóðmynd ársins 
Salka Valsdóttir og Kristinn Gauti Einarsson 
Rómeó og Júlía
Þjóðleikhúsið

Söngvari ársins 
Halldóra Geirharðsdóttir
Níu líf
Borgarleikhúsið

Dansari ársins 
Shota Inoue
Rómeó og Júlía
Íslenski dansflokkurinn

Danshöfundur ársins 
Erna Ómarsdóttir 
AIŌN
Íslenski dansflokkurinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands

Dans- og sviðshreyfingar ársins
Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Rebecca Hidalgo
Rómeó og Júlía
Þjóðleikhúsið

Barnasýning ársins 2022 
Emil í Kattholti
eftir Astrid Lindgren
Borgarleikhúsið

Sproti ársins 2022 
Umbúðalaust
Borgarleikhúsið

Heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2022
Ólafur Haukur Símonarson, leikskáld og rithöfundur

Tengdar fréttir

Leiklist

Heiðursverðlaun Grímunnar: Ólafur Haukur Símonarson

Leiklist

Sjö ævintýri um skömm fær sex Grímuverðlaun

Leiklist

Dans- og tónverk ársins 2022: AIŌN

Leiklist

Barnasýning ársins: Emil í Kattholti