Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skortur á rútum hindrar farþega skemmtiferðaskipa

14.06.2022 - 09:23
Flöskuhálsar eru að myndast í ferðaþjónustu hér á landi og dæmi eru um að farþegar skemmtiferðaskipa komist ekki í þá afþreyingu sem þeir vilja vegna þess að það vantar rútur og bílstjóra. Baðstaðurinn Vök við Urriðavatn nærri Egilsstöðum hefur orðið af viðskiptum vegna þessa.

Það er óhætt að segja að nýir baðstaðir í hafi slegið í gegn hjá ferðamönnum sem koma hingað til lands. Þannig hefur aðsóknin í Vök við Urriðavatn farið langt fram úr björtustu vonum.

„Við á Íslandi erum orðin þekkt núna fyrir wellness og flotta baðstaði. Þannig að það eru orðnir alveg gríðarlega margir flottir baðstaðir hérna og fólk getur valið um, og margir hverjir eru að fara í nokkra. Þeim finnst þetta svo spennandi. Þannig að þeir fara í Bláa lónið, og þeir fara í Sjóböðin á Húsavík og núna nýjasta Skógarböðin á Akureyri. Þannig að það er bara gríðarlega flott og allir þessir staðir eru með sína sérstöðu,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths.

Þeir sem vinna í ferðaþjónustu keppast við að gera sitt besta til að þjóna fjöldanum en við sumt verður ekki ráðið. Nýverið komu tvö skemmtiferðaskip til Seyðisfjarðar sama daginn. „Og það voru samtals 4.500 manns sem komu í höfn þannig að það voru bara allar stórar rútur uppseldar. Og bara því miður þá komust ekki fleiri farþegar frá Seyðisfirði til okkar hérna á Egilsstöðum í Vök. Þá voru líka allir bílstjórar, leigubílstjórar og annað, líka uppseldir. Það var eiginlega bara ekki hægt að komast yfir,“ segir Aðalheiður.

Allt að 1.100 manns koma í Vök á dag og þar er ýmislegt á prjónunum til að bregðast við góðri aðsókn. Í kringum Jónsmessu verður opið allan sólarhringinn til að gestir geti baðað sig í miðnætursólinni.

„Við sjáum mun meiri bókanir fram undan heldur en voru í fyrra. Við erum komin í 70% af því sem var á bestu dögunum í fyrra í júlí. Og allar áætlanir hafa staðist. Þetta voru mjög metnaðarfullar áætlanir og þær hafa staðist og gott betur en það,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths.