Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skjálfti af stærðinni 3,9 við Grindavík

Mynd með færslu
Horft til suðurs í átt að Svartsengi og fjallinu Þorbirni á Reykjanesskaga, sem hér byrgir sýn til Grindavíkur Mynd: RÚV - Kristján Þór Ingvarsso - RÚV
Jörð hefur skolfið á Reykjanesskaga í gærkvöld og nótt. Mest er skjálftavirknin skammt norður og norð-norðvestur af Grindavík þar sem skjálfti af stærðinni 3,9 reið yfir laust eftir klukkan eitt í nótt. Um 100 eftirskjálftar fylgdu í kjölfar hans, segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar, þeir stærstu 2,9, 2,8 og 2,7 að stærð. Þeir riðu allir yfir áður en hálftími var liðinn frá þeim stærsta.

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að síðast hafi orðið skjálftar af þessari stærð á Reykjanesskaga hinn 15. maí, við Eldvörp.

Engin merki um gosóróa

Bryndís Ýr Gísladóttir, jarðvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu að töluvert hafi tekið að draga úr skjálftavirkninni þegar líða tók á þriðja tímann. Bryndís Ýr segir engin merki hafa greinst um gosóróa eða kvikuhreyfingar til þessa. Veðurstofunni barst um tugur tilkynninga frá fólki sem varð vart við stærsta skjálftann að sögn Bryndísar Ýrar, flestar frá Grindavík. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV