Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Nú höfum við sterkt bakland í hagsmunabaráttunni“

Mynd með færslu
 Mynd: BIG - Samtök Iðnaðarins
Félag pípulagningameistara hefur gengið til liðs við Samtök iðnaðarins. Þar með eru öll meistarafélög iðngreina í bygginga- og mannvirkjaiðnaði sameinuð í eitt félag.

Böðvar Ingi Guðbjartsson, formaður Félags pípulagningameistara, segir í samtali við fréttastofu að sameiningin hafi verið brýn. „Nú höfum við sterkt og gott bakland í okkar hagsmunabaráttu. Það var vont að vera fyrir utan, við vorum einangraðir.“ Böðvar segir að þetta styrki til að mynda aðkomu pípulagningameistara að öllum samskiptum við stjórnvöld. Þeir hafi greiðari aðgang að öllu samráði í gegnum samtökin.

Í tilkynningu er haft eftir Árna Sigurjónssyni, formanni Samtaka iðnaðarins, að sameiningin sé stórt skref. „Með þessu eflum við samtökin og rödd þessara mikilvægu atvinnugreina enn frekar.“ Í Samtökum iðnaðarins voru fyrir meistarafélög í blikksmíði, dúklögn og veggfóðrun, innréttinga- og húsgagnasmíði, skrúðgarðyrkju, húsasmíði, málaraiðn, múraraiðn og rafverktöku.

Þau sem hafa meistararéttindi og löggildingu í pípulögnum geta gengið í Félag pípulagningameistara. Við inngöngu félagsins í Samtök iðnaðarins verða allir félagsmenn sem stunda atvinnurekstur jafnframt félagsmenn í samtökunum.

 

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir