Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mál ónefnda fótboltamannsins, Gylfa Sigurðssonar

14.06.2022 - 13:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Tæpt ár er nú liðið frá því að Gylfi Þór Sigurðsson, einn besti knattspyrnumaður íslenskrar fótboltasögu, var handtekinn á heimili sínu í Manchester, grunaður um kynferðisbrot. Á þessum 11 mánuðum hefur Gylfi ekki leikið fótbolta, hvorki með félagsliði sínu Everton né íslenska landsliðinu. Þetta helst skoðar ofan í kjölinn það litla sem þó er vitað um mál ónefnda fótboltamannsins frá Íslandi.

Gylfi Þór sætir farbanni í Bretlandi, sem hefur ítrekað verið framlengt. Hann er sagður fara huldu höfði í einhvers konar skjólhúsi í London. Gylfi hefur ekki verið nafngreindur í fjölmiðlum ytra, lögreglan í Manchester gefur ekkert út nema stöku setningar um framlengingu farbanns og ætlað brot Gylfa gegn einhverjum ólögráða einstaklingi, er mjög svo á reiki. Everton ætlar ekki að framlengja samninginn við hann, fréttist fyrir nokkrum dögum. 

„Gylfi er einn albesti íþróttamaður sem Ísland hefur alið af sér. Hann er fyrirmynd allra ungra knattspyrnuiðkenda og hefur fram til þessa verið fyrirmyndaratvinnumaður þannig að þetta kemur mjög flatt upp á fólk og það er slegið. En það er rétt að taka fram að á þessu stigi er um rannsókn að ræða og það munu væntanlega líða einhverjar vikur þar til það kemur í ljós hvert sú rannsókn leiðir. Það er, hvort það verði gefin út ákæra eða hvort málið verði fellt niður.“ 
- Magnús Geir Eyjólfsson, fréttamaður RÚV, 20. júlí '21

Enginn veit neitt 

Væntanlega líða einhverjar vikur þar til eitthvað kemur í ljós, sagði Magnús þarna fyrir tæpu ári síðan. Venjulega þurfum við nefnilega ekki að bíða í marga mánuði eða jafnvel ár þar til við fáum einhverjar haldbærar upplýsingar í svona málum. Að minnsta kosti ekki á Íslandi. En þetta gerðist ekki á Íslandi, þó að Gylfi sé sannarlega Íslendingur. Ekk­ert hefur komið fram í breskum fjöl­miðlum um hvers eðlis meint brot er, eða hvenær það á að hafa átt sér stað, en þó vísar fleiri en einn mið­ill í ónafn­greinda heim­ild­ar­menn sem segja ásak­an­irnar alvar­leg­ar.

Mafían, blaðamenn og samsæri

Hvað Gylfi átti að hafa gert varð stærsta spurningin sem virtist vera á allra vörum. Kynferðisbrot gegn barni, var það víst. En hvaða barni? Hvernig kynferðisbrot? Hvað þarf manneskja að vera gömul til að kallast barn? Var þetta ekki allt saman samsæri fótboltaelítunnar eða gjörspilltra blaðamanna? Sumir slengdu meira að segja fram albönsku mafíunni og meintrar aðkomu hennar að málinu. Af hverju heyrðist ekkert frá herbúðum Gylfa? Allir byrjuðu að geta í eyðurnar. Og það boðar sjaldnast gott. Breska lögreglan var þögul sem gröfin, en það sem þó kom þaðan voru bara brotakenndar upplýsingar sem virkuðu sem olía á eld í þessu sagnapúsli sem vantaði, og vantar enn, allt of marga bita í. Málið var bara í rannsókn. 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Gylfi Þór er einn besti fótboltamaður Íslandssögunnar og var um tíma á lista með þeim bestu í heimi.

„Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, verður áfram laus samkvæmt skilyrðum og í farbanni fram til 16. júlí samkvæmt nýjum úrskurði dómstóls í Bretlandi. Hann hefur þá verið í farbanni í ár. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Manchester í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Lögregla nefnir Gylfa ekki á nafn.“
- úr frétt RÚV, 17. apríl 2022 

Restin af fréttinni er svo bara endurtekning á gömlum upplýsingum um Everton, fjarveru Gylfa frá landsliðinu og þögn KSÍ. En þarna erum við komin í heilan hring, heilt ár, akkúrat 365 daga. Gylfi var handtekinn á heimili sínu þann 16. júlí 2021 og samkvæmt nýjustu upplýsingum sem við höfum rennur það allt saman út akkúrat ári síðar, þann 16. júlí næstkomandi. 

The Case of the Unnamed Footballer

Það var svo núna um daginn bara þegar breska íþróttatímaritið The Athletic birti grein undir fyrirsögninni: Mál ónefnda fótboltamannsins sem er til rannsóknar vegna kynferðisbrots gegn barni, eða The Case of the Unnamed Footballer Being iInvestigated for Child-Sex Offenses. Það kemur svo sem ekkert nýtt fram í greininni, þannig séð. Ekkert frekar en í öllum þeim þúsunda frétta og greina sem hafa verið skrifaðar um mál Gylfa á þessum tæpa ári sem það hefur verið í gangi. En blaðamaðurinn, Daniel Taylor, byrjar á því að lýsa fallegri breiðgötumynd þar sem Gylfi býr í Manchester - stórar glæsivillur umkringdar háum veggjum, vegleg hlið, öryggismyndavélar út um allt og nógu mikið af kraftmiklum bílum til að staðfesta að þetta sé hólmlenda  fótboltamannsins. 

„Það var hér, dag einn síðasta sumar, þegar rannsóknarlögreglumenn bönkuðu upp á hjá fótboltamanni einum í tengslum við rannsókn á meintri kynferðislegri misnotkun á barni. Þessa daganna fer þessi fótboltamaður huldu höfði og heldur til í húsnæði sem er skilgreint sem safe-house, eða skjólhús. Honum er ekki boðið með í golf með liðsfélögum sínum, eða í kaffibolla eftir æfingu. Hann hefur verið fluttur á ótilgreindan stað á meðan lögreglan rannsakar þær ásakanir um að hann hafi beitt stúlku undir sextán ára aldri kynferðislegu ofbeldi. Fartölvan hans hefur verið tekin og það hefur meira að segja verið gefið í skyn að það hafi verið teipað fyrir glugga í nýja húsinu hans til að koma í veg fyrir að drónar geti tekið myndir inn um þá. Sagt er að fótboltaliðið hans hafi komið honum fyrir í þessu húsi. Enginn af félögum hans í liðinu vill tala um þetta. Enda veit enginn nákvæmlega hvað er í gangi, fyrir utan hans nánasta hring.“
- úr grein Taylor í The Athletic

Everton endurnýjar ekki samninginn

BBC greindi frá því fyrir nokkrum dögum að Gylfi væri einn þriggja liðsmanna félagsins sem fær ekki endurnýjaðan samning eftir að hann rennur út nú í júnílok. Tæpt ár er síðan Gylfi var handtekinn af lögreglu, grunaður um kynferðisbrot gegn barni, eða ólögráða manneskju, eða stúlku undir 16 ára aldri, það fer allt eftir því hvern þú spyrð. Eins og ítrekað hefur komið fram gengur þessi gulldrengur Íslands enn laus gegn tryggingu, þó að það megi svo sem deila um það hvort einangrun í ótilgreindu húsi eða íbúð með skyggðum gluggum sé samasemmerki við það að ganga laus. Við getum líklega búist við næstu fréttum eftir rúman mánuð, þann 16. júlí, þegar nýjasta framlenging rannsóknarlögreglunnar í Manchester rennur út. Hvort það þýði bara enn ein framlengingin eða hvort lögreglan tekur þá eitthvað veigamikið skref í málinu, sem yrði þá annað hvort ákæra eða niðurfelling málsins, verður tíminn einn víst að leiða í ljós. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Samningur Gylfa við Everton rennur út um næstu mánaðarmót. Hann verður ekki endurnýjaður.