Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Jarðefnaeldsneytisbílar aka metangasi milli landshluta

14.06.2022 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Vefur Norðurorku - RÚV
Metangasi verður ekið með flutningabílum frá Reykjavík til Akureyrar svo hægt sé að knýja metanbíla bæjarins. Verkefnastjóri hjá Norðurorku segir að það sé tímabundin lausn þar til stýrð metanframleiðsla hefst í bænum.

Minna að hafa úr haugnum en spáð var

Síðustu átta ár hefur Norðurorka framleitt metangas úr gömlu ruslahaugunum á Glerárdal fyrir ofan Akureyri. Sunna Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Grænna lausna hjá Norðurorku, segir að haugurinn gefi mun minna gas en spálíkön gerðu ráð fyrir.

„Það má svo sem rekja til þess að við erum að vinna svolítið í svona tilraunaverkefni. Það er líka vegna þess að haugurinn er sjúga inn súrefni, sem er ekki æskilegt, og við erum líka að missa metangas út af því að hann er ekki nógu vel lokaður, haugurinn.“

Nauðsynlegt til að halda metanbílaflotanum úti

Sunna segir að Akureyrarbær hafi stutt við uppbyggingu á metannýtingu og eru til dæmis margir strætisvagnar, sorpbílar og ferlibílar bæjarins knúnir metani. Til að hægt sé að halda þeim bílaflota úti hefur verið ákveðið að flytja metangas frá SORPU í Reykjavík með flutningabílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

„Þetta er í rauninni bara gert til þess að við getum haldið uppi þessum innviðum sem búið er að byggja upp hér á svæðinu þar til við förum að framleiða við stýrðar aðstæður.“ segir Sunna.

Stefnan á að verða sjálfbær

Markmiðið sé að verða sjálfbær um metangas en það náist ekki við núverandi aðstæður. Til þess þurfi stýrða metanframleiðslu. Unnið sé að hagkvæmnimati á hvernig það verði best gert. Svo taki nokkur ár að byggja upp slíkt framleiðslukerfi.

„Það er svolítið ekki alveg í okkar höndum að ákveða það eða fara í það, það er svolítið bara samfélagsins að ákveða hvað á að gera og hvaða stefnu á að taka,“ segir Sunna.