Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hin ellefu ára Garima sigraði í kvennaflokki í tennis

Mynd með færslu
 Mynd: tennis Rafn Kumar Bonifacius Gar

Hin ellefu ára Garima sigraði í kvennaflokki í tennis

14.06.2022 - 18:14
Hin unga og bráðefnilega Garima Nitinkumar Kalugade frá Víking vann kvennaflokkinn á Stórmóti Hafna- og Mjúkboltafélags Reykjavíkur sem haldið var á tennisvelli Víkings í Fossvoginum um nýliðna helgi. Margfaldi Íslandsmeistarinn Rafn Kumar Bonifacius sigraði þá karlamegin. Íslandsmótið fer fram um þessar mundir, en úrslit í einstaklingskeppni karla og kvenna fara fram sunnudaginn 19. júní.

 

„Við höfum aldrei áður séð svona 11 ára stelpu sem er svona góð þessi 28 ár sem ég hef verið hérna."

Hin unga og bráðefnilega Garima Nitinkumar Kalugade frá Víking vann kvennaflokkinn á Stórmóti Hafna- og Mjúkboltafélags Reykjavíkur sem haldið var á tennisvelli Víkings í Fossvoginum um nýliðna helgi. Garima er aðeins 11 ára en er talin gífurlega hæfileikarík og geta náð langt.

Á myndinni með fréttinni má sjá þau Garimu og Rafn sátt að leikslokum með verðlaunagripi í hönd.

Raj Kumar Bonifacius, faðir Rafns, var mótshaldari mótsins en hann telur Garimu vera bráðefnilega, „Við höfum aldrei áður séð svona 11 ára stelpu sem er svona góð þessi 28 ár sem ég hef verið hérna. Það er ákveðin hefði fyrir svona ungum stelpum að spila vel í tennis, en það hefur kannski verið minna um það síðustu ár. Hún bara all-in í tennis og æfir stíft, yngri systir hennar gerir það líka sem er bara geggjað."

„Garima er í 4. sæti á styrkleikalistanum í tennis á Íslandi eins og er, og var 2. besti spilarinn á vormótinu. Svo var hún í 3. sæti á Íslandsmóti innanhúss sem fór fram í vor," bætti Rafn við. 

Ríkjandi Íslandmeistari kvenna er Sofía Sóley Jónasdóttir frá TFK en hún hefur unnið þrisvar sinnum alls, þar af síðustu tvö ár.

Þá vann Rafn Kumar Bonifacius frá Hafna og Mjúkboltafélagi Reykjavíkur karlaflokkinn á stórmóti HBR. Hinn örvhenti Rafn er margfaldur íslandsmeistari í tennis, fjórum sinn alls og þá er hann einnig ríkjandi meistari.

 

Niðurstöður Stórmóts HBR voru eftirfarandi:

Karlaflokkur

1. Rafn Kumar Bonifacius (HBR)

2. Freyr Pálsson (Víkingur)

3. Ólafur Helgi Jónsson (Fjölnir)

 

Kvennaflokkur

1. Garima Nitinkumar Kalugade (Víkingur)

2. Eygló Dís Ármannsdóttir (Fjölnir)

3. Eva Dilja Arnþórsdóttir (Fjölnir)

Í barnaflokki sigraði Magnús Egill Freysson (Hafna- og mjúkboltafélag Reykjavíkur) og Einar Ottó Grettisson (Hafna- og mjúkboltafélag Reykjavíkur) sigraði Mini Tennis flokkurinn.  

Íslandsmótið í tennis stendur nú yfir á dögunum 13. - 19. júní en úrslitaleikirnir í einstaklingskeppni karla og kvenna fer fram sunnudaginn 19. júní á Víkingsvellinum.

 

Tengdar fréttir

Tennis

Rafn Kumar: „Kanntu ekki reglurnar eða?“