Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Allar flóttaleiðir frá Severodonetsk lokaðar

14.06.2022 - 01:54
Ukrainian soldiers talk during heavy fighting against Russia at the front line in Severodonetsk in the Luhansk region of Ukraine, Wednesday, June 8, 2022. (AP Photo/Oleksandr Ratushniak)
 Mynd: AP
Ekkert lát er á hörðum eldflauga- og sprengjuárásum Rússa á úkraínsku borgina Severodonetsk í Luhanskhéraði í austanverðri Úkraínu. Stórskotahríð hefur dunið á iðnaðarhverfi þar sem um 500 óbreyttir borgarar hafa leitað skjóls, að sögn héraðsstjóra Luhansk, og allar brýr til vesturs, yfir ána Donats, hafa verið sprengdar niður.

„Allar brýrnar eru ónýtar,“ sagði héraðsstjórinn Sergei Haidai í ávarpi sem hann birti á samfélagsmiðlum að kvöldi mánudags. Hann sagði Rússa hafa náð borginni á sitt vald að miklu en þó ekki öllu leyti, hluti hennar væri enn í höndum Úkraínumanna. Fyrr um daginn lýsti Haidai því yfir að úkraínski herinn hefði neyðst til að hörfa frá miðborg Severodonetsk, sem væri fallin í hendur Rússa.

Allar leiðir lokaðar

Severodonetsk stendur á austurbakka árinnar Donets. Þrjár brýr tengdu hana við systurborgina Lysjansk á vesturbakkanum og tvær þeirra stóðu enn í síðustu viku. Á sunnudag sprengdi rússneski innrásarherinn aðra þeirra niður og á mánudag fór sú þriðja og síðasta sömu leið. Þar með hefur öllum flóttaleiðum óbreyttra borgara til vesturs verið lokað, en landið austur af Severodonetsk er allt á valdi Rússa.

Óttast er að atburðarás næstu daga og vikna  geti orðið í líkingu við hryllinginn í Mariupol, sem Rússar lögðu nær algjörlega í rúst með linnulausum sprengjuárásum vikum saman, eftir að þeir náðu að umkringja borgina.